Skip to content

Dagur íslenskrar tungu – Íslenskuverðlaun unga fólksins

Í dag var þremur nemendum Dalskóla veitt íslenskuverðlaun unga fólksins.

Undanfarin ár hafa þessi verðlaun verið afhent á hátíðlegum viðburði í Hörpu, en í ár voru verðlaunin afhent í skólanum.  Horft var á myndband með ávörpum Skúla Helgasonar formanns Skóla- og frístundaráðs, Mörtu Guðjónsdóttur formanns verkefnisins og Vigdísar Finnbogadóttur stofnanda og verndara verðlaunanna.

Í ávarpi Vigdísar Finnbogadóttur hvatti hún unga fólkið til að hlúa að íslenskunni, en án íslenskunnar myndum við glata minningum þjóðarinnar og þeirra sem á undan hafa gengið og án minninga væri lífið snautt.

Í ár voru það Ísabella Elínborg Cecchini í 4. bekk sem fékk verðlaunin fyrir mikla rækt við lestrarnámið, sýnt þrautseigju og dugnað og tekið miklum framförum.

Jökull Fannar Claessen í 7. bekk fyrir einstakt vald á íslensku máli bæði munnlega og skriflega. Hann býr yfir miklum orðaforð, er mikill lestrarhestur og hefur gaman að því að leika sér með tungumálið í ritun, en skrif hans og sögur einkennast af vönduðu máli og mikilli sköpunargleði.

Sóldís Rós Ragnarsdóttir í 10. bekk hefur með mikilli vinnu og elju í íslenskunáminu náð eftirtektarverðum framförum í málfræði, lesskilningi og málnotkun.

Við óskum verðlaunahöfum til hamingju.