Skip to content

Dalskóli hlýtur íslensku menntaverðlaunin

Á föstudaginn í síðustu viku var tilkynnt um hvaða skóli, hvaða verkefni og hvaða kennari hlýtur íslensku menntaverðlaunin. Dalskóli er sá skóli sem fær verðlaunin fyrir eftirtektarvert og framúrskarandi þróunarstarf.

Eitt verkefnið sem tekið var eftir eru smiðjurnar okkar þar sem samfélags- og náttúrugreinar eru samþættar við aðrar námsgreinar með áherslu á upplifun og örvun, samtal og samstarf við stofnanir, fyrirtæki og menningarstaði. Við leggjum áherslu á að kafa dýpra í verkefnunum og verkefnaskilin hafa oft verið í formi sýninga innan eða utan skólans. Þverfagleg samvinna starfsmanna og aldursblönduð samvinna barna hafa gefið skólanum sveigjanleika og seiglu fyrir utan hvað þetta gefur mikla gleði. Við köllum þetta stundum pönkið í skólanum.

Annað þróunarverkefnið sem við nefnum hér var hleypt af stokkunum á fyrsta ári skólans, það er það að kennarar og stjórnendur í skólanum rannsaka eigin störf markvisst á umbótamiðaðan hátt, reglulega dag frá degi, viku fyrir viku. Þeir framleiða þannig þekkingu sem er miðlað í skólasamfélaginu okkar allt til hagsbóta fyrir nemendur til að gæði náms, kennslu, leiðsagnar og leiks aukist.

Það voru þau Jökull Fannar í 7. bekk og Sóldís Rós í 10. bekk ásamt Eddu Ýr og Arndísi myndlistarkennurum sem tóku á móti verðlaununum á Bessastöðum ásamt skólastjóra.