Bréf frá skólastjóra

Hér að neðan má sjá bréf sem Hildur skólastjóri sendi á foreldra og forráðamenn.

Dalskóli vex og dafnar,leikskólabörnum fjölgar dag frá degi og allt fyllist af lífi og fjöri.

Síðasta vika gekk vel og erum við sérstaklega stolt af frammistöðu barnanna í því sem við köllum smiðjur. Yfirheiti smiðjunnar okkar fram að vígslu Dalskóla er STEINAR. Yngstu hóparnir okkar skoðuðu steina af ýmsum gerðum, spjölluðu um steina, flokkuðu þá eftir lit og lögun og fóru í steinaleiðangra. Grunnskólanemendur unnu ýmist leikrit, skuggaleikhús eða gerðu kvikmynd þar sem þjóðsögur voru lagðar til grundvallar. Sögurnar áttu það sameiginlegt að  söguhetjur komu úr björgum, gengu í björg eða söguhetjan kom  af stað jarðhræringum með framkomu sinni. 

Á föstudag hittust allir nemendur skólans í samsöng og var frammistaða þeirra allra yngstu mjög gleðileg en það kom á óvart hve vel þau voru með á nótunum. Sama dag fóru elstu börn leikskólans í myndlist í fyrsta sinni til Eddu Ýrar og stóðu sig mjög vel.

Framreiðsla á mat gengur mjög vel hjá okkur og börnin borða af mikill áfergju og góðri list enda Örn snilldarkokkur.

Okkur langar til þess að benda ykkur öllum á að heimasíðan okkar www.dalskóli.is  er smám saman að fá  kjöt á beinin þó enn sé langt í land, þar birtast matseðlar, stundatöflur , fréttir ásamt ýmsum gagnlegum upplýsingum um skólann.

Við viljum ítreka að nemendur sem koma á hlaupahjólum og reiðhjólum hafi hjálma og vandi sig í umferðinni. Við fengum ábendingu um að þau bruna hratt niður göturnar  t.d. Urðarbrunn og jafnvel hjálmlaus.

Nú styttist óðfluga í NÁMSKYNNINGAR OG STOFNUN FORELDRAFÉLAGS DALSKÓLA en 23. september kl. 20:00 eru þið kæru foreldrar boðuð til foreldrafundar hér í skólanum þar sem kennarar skólans kynna starfið og þið stofnið foreldrafélag.

Prenta | Netfang

Skapandi starf í Dalskóla

Grunnskólabörnin unnu skemmtilegt verkefni í smiðjunum í dag. Þar hlustuðu þau á þrjár þjóðsögur sem tengdust þemanu okkar, steinum, á ýmsa vegu. Að því loknu völdu þau sér eina sögu sem þau vildu vinna með og úr urðu þrír hópar. Hópur sem var undir stjórn Elfu Lilju, Eddu og Berglindar gerðu Stopmotion mynd um uppruna Hekluelda. Þegar hún verður fullklárðuð mun hún verða birt hér á heimasíðu skólans. Gunnar sá um einn hóp en hann gerði leikverk upp úr sinni sögu sem fjallaði um kellinguna sem vildi fá eitthvað fyrir snúð sinn. Hópurinn hennar Sirrýjar gerði skuggaleikhús upp úr sögunni stúlkan í Tindastól. Þau fengu góða aðstoð frá Bendt húsverði skólans. Nemendur sýndu svo starfsfólki skólans afraksturinn sem var glæsilegur.

Á morgun föstudag verður hattadagur í frístundinni en eins og áður munu börnin sem dvelja í frístund Dalskóla gera sér dagamun á föstudögum. Yfirlit yfir „öðruvísi föstudaga“ má sjá undir flipanum nemendur-frístund.

Prenta | Netfang

Óskasteinar og fréttablað

Þeir nemendur sem fóru í tíma til Eddu myndmenntakennara í morgun bjuggu sér til flotta óskasteina. Á næstu vikum munu börnin vinna áfram að steinaþemanu okkar en afraksturinn má sjá á vígslu skólans laugardaginn 2. október kl.11.00.

Elstu börn leikskólans borðuðu í fyrsta sinn í skólanum í dag ásamt grunnskólabörnunum. Það var því mikið um að vera í hádeginu þegar um 50 börn og fullorðnir borðuðu dýrindis hakkabuff ásamt brúnni sósu og fersku grænmeti sem Örn kokkur framreiddi.

Í frístundinni hófu nokkrir duglegir krakkar vinnu að fréttablaði. Þar ætla þau að taka viðtöl við nemendur og starfsfólk, birta myndir, segja brandara og fleira. Fréttablaðið verður svo prentað í nokkrum eintökum og að sjálfsögðu birt á heimasíðunnu.

Athygli er vakin á því að nú eru stundatöflur grunn- og leikskólans aðgengilegar á heimasíðu Dalskóla. Hægt er að nálgast þær hér að ofan undir hverjum bekk eða deild fyrir sig.

Prenta | Netfang

Fleiri greinar...