Álfabjörg færir Fríkirkjunni í Reykjavík listaverk

Nokkur börn af Álfabjörgum, sem hafa í vetur verið í kirkjuhóp, tóku strætó niðrí miðbæ Reykjavíkur í gær og færðu Fríkirkjunni í Reykjavík gjöf.  Gjöfin var stórt veggverk, sem börnin höfðu útbúið af Fríkirkjunni á meðan á verkefninu "Reykjavík borgin okkar" stóð í vetur.

Verkefnið var samstarfsverkefni þriggja leikskóla í borginni; Dalskóla, Sæborgar og Klambra og var sýnt á Barnamenningarhátíð.  Séra Hjörtur Magni Jóhannsson tók við verkinu og þakkaði börnunum kærlega fyrir gjöfina.

Prenta | Netfang

Útskrift 10. bekkinga 2017

Þann 6. júní var mikill merkisdagur í sögu Dalskóla en þá útskrifuðum við fyrstu 10. bekkingana okkar. Stundin var innileg og hátíðleg og það ríkti glaðværð og spenna með undirtón eftirsjár í loftinu.

Flutt voru nokkur ávörp. Gunnar Melsteð kennari þakkaði nemendum samfylgdina, talaði um hið óvænta og krossgöturnar framundan með áherslu á að hið óþekkta sé ekki ógnvænlegt, það er um að gera að ganga óhikað fram. Auk þess ráðlagði hann þeim að að fylgja góðum ráðum eldra fólks, því áður en varir munu þau vera orðin hin eldri sem vilja að tekið sé mark á þeirra leiðbeiningum.

Kristinn Steinn Traustason flutti hátíðarávarp foreldra, talaði fallega til útskriftarhópsins, hvatti þau til dáða og hlakkar til þess að mæta fullorðnum Dalskólabörnum í hinum ýmsu störfum. Ekki amalegt að láta Dalskólalækni kíkja á sig, að Dalskólapípari reddi vatnslekanum. Hann þakkaði starfsmönnum og foreldrum gott starf í að koma ungviðinu á legg því það þurfi ævinlega heilt þorp að koma barni til manns.

Ísak Óli Borgarsson flutti ávarp nemenda. Hann talaði um að hann hefði lengi beðið eftir þessum degi að útskrifast úr grunnskóla, en nú þegar stóra stundin væri upp runninn væri það ekki lengur heitasta óskin. Það væri bara fínt að vera hér áfram, hér hafi verið gott að vera, skólinn lítill og passlegur, síðasti vetur alveg frábær, árshátíðin og útskriftarferðin stæðu upp úr og héðan færi maður með góðar minningar.

Hildur Jóhannesdóttir skólastjóri lagði út af einkunnarorðum skólans: Hamingjan er ferðalag. Hún ræddi að í hraða nútímalífs þar allir væru sífellt á leiðinni eitthvert, alltaf að bíða eftir að einhverju ljúki, til þess að eitthvað annað hefjist og til þess að ljúka því líka að það sé mikilvægt að njóta ferðalagsins og augnabliksins. Hún bennti á að það verður líklega ein af aðal áskorunum þessarar kynslóðar að geta verið fær um að vera til staðar, fyrir sig sjálf og fyrir hvert annað.

Að útskrift lokinni sátu menn saman og nutu veitinga í boði foreldra.

Prenta | Netfang

Leikskólahluti Dalskóla fær hvatningarverðlaun Reykjavíkurborgar

hvatningarverðlaun1Föstudaginn 19.maí sl. fékk leikskólahluti Dalskóla hvatningarverðlaun Reykjavíkurborgar fyrir samstarfsverkefnið Reykjavík borgin okkar.  Leikskólahluti Dalskóla hefur ásamt leikskólunum Sæborg og Klömbrum unnið að verkefninu sem miðar að því að börnin séu einskonar landkönnuðir, kanna borgina og upplifa hana á sinn hátt.  Afrakstur verkefnisins var svo sýndur í Ráðhúsi Reykjavíkur á Barnamenningarhátíð.

Prenta | Netfang

Fleiri greinar...