Foreldrar

Forsenda góðs skólastarfs er foreldrasamstarf. Gagnkvæm virðing þarf að ríkja milli heimilis og skóla. Nauðsynlegt er að foreldrar fái greinagóðar upplýsingar um starfsemi skólans og fræðist um hlutverk sitt gagnvart skólagöngu barna sinna. Mikilvægt er að foreldrar séu sáttir við starf skólans og styðji það. Til þess að svo megi vera leggur Dalskóli mikla áherslu á að aðgengi foreldra að skólanum sé gott, foreldrar eru velkomnir í skólann og inn í kennslustundir og leikstundir hvenær sem þeim hentar, skólinn mun kappkosta við að senda foreldrum fregnir af starfinu auk þess sem heimasíðan er góður vettvangur til þess að átta sig á starfi skólans. Viðhorf barna til skólans og til kennaranna mótast að miklum hluta á heimilum og því afar mikilvægt að kennarar og foreldrar finni til ábyrgðar og skuldbindingar gagnvart árangri og vellíðunar barns í skóla. Það er mikilvægur stuðningur við skólastarfið að foreldrar temji sér að tala jákvætt um skóla barnanna og vinnu þeirra þar. Börn tileinka sér gjarnan viðhorf foreldra sinna og taka þá sér til fyrirmyndar.

Í Dalskóla er stefnt að því að foreldrar eigi hlutdeild í öllum þáttum skólastarfsins eins og námskrárvinnu, þróunaráætlun, umfjöllun um kennsluhætti, félagsstarf nemenda, símenntun starfsmanna, sérstakar áherslur skólans, námsmat ofl.

Foreldrar eru hvattir til að hafa samband við starfsfólk skólans ef þá skortir upplýsingar eða vilja koma á framfæri ábendingum um skólastarfið. Einfaldar ábendingar og skemmtilegar hugmyndir frá foreldrum geta stutt starfið í skólanum og gert það fjölbreyttara.

Til þess að auka samstarf og samhug munu kennarar Dalskóla standa fyrir litlum námskeiðum fyrir foreldra og kennara, því þeim mun betur sem við þekkjumst þeim mun auðveldara er að ná árangri saman. 

Prenta | Netfang