Líf og fjör í Dalskóla

Skólastarfið hefur farið vel af stað í Dalskóla. Nemendur og starfsfólk eru ánægð með fyrstu dagana og staðráðin í að láta næstu daga, vikur og mánuði vera árangursríka og skemmtilega. Iðnaðarmenn eru í óða önn að ganga frá skólalóðinni okkar en það er ljóst að hún verður sú allra flottasta á landinu. Þangað til ætla allir að fara varlega og sleppa því að fara inn á svæði þar sem stórar vinnuvélar eru í notkun.

Börnin hafa unnið mörg skemmtileg verkefni tengd steina þemanu okkar. Þau hafa farið í gönguferðir um hverfið, lært um mismunandi tegundir steina, eldgos, veðrun, þ.e. áhrif vatns á land. Í gær, miðvikudag, bjuggu nemendur til eldfjall, árfarveg og öldugang og var afraksturinn afar lærdómsríkur. Í dag ætla öll börnin að ganga á Úlfarsfell.

Eldhúsið okkar er komið í lag og hafa börnin fengið að borða frá mánudegi í þessari viku. Því er óþarfi að senda börnin með nesti, séu þau skráð í mat í skólanum. Góð mæting er í hafragrautinn milli 8:00 og 8:30 á morgnana en vert er að taka fram að öllum foreldrum er velkomið að koma með sínum börnum og gæða sér á hafragraut í morgunsárið. Ávaxtastund og hádegismatur eru á sínum stað auk þess sem börn í frístund fá síðdegishressingu.

Næstkomandi mánudag 6. september hefst aðlögun leikskólabarna en í Dalskóla verða um 50 börn á leikskólaaldri í vetur. Aðlögunin mun taka tvær til þrjár vikur en þá verður starfsemi skólans komin á fullt og alveg á hreinu að mikið líf mun færast yfir skólahúsnæðið. Eldri börnin í Dalskóla ætla sér að hjálpa til með þau yngri og sína þeim nágrennið, skólalóðina og allt það sem þau hafa komist að á fyrstu vikunum.

Þrátt fyrir að allt gangi vel þá eru nokkur atriði sem eru ekki alveg komin í gagnið hjá okkur. Símkerfið er ekki komið í lag og því er einungis einn sími sem hægt er að nota þurfi fólk að ná í starfsfólk skólans, það er 664-8370. Netföng starfsmanna eru að komast í gagnið en hafi foreldrar eða aðrir sent tölvupóst til starfsmanna skólans og ekki fengið svar þá er ekki úr vegi að hringja eða gera aðra tilraun til að senda á okkur.

Prenta | Netfang