Jákvæður agi í Dalskóla

Jákvæður agi 1 löguð

Í vetur hefur nokkur hópur starfsmanna Dalskóla hist reglulega í leshring þar sem grunnbók Jákvæðs aga hefur verið lesin kafla fyrir kafla. Lesturinn er hluti af innleiðingu Jákvæðs aga í skólanum en Dalskóli tók formlega upp hugmyndafræði stefnunnar haustið 2013.

Þessi aðferð byggir á sjálfstjórnarkenningunni og er náskyld uppbyggingarstefnunni. Jane Nelsen höfundur stefnunnar leggur upp með að mistök séu til þess að læra af þeim, að okkur þurfi ekki fyrst að líða illa til þess að okkur gangi betur og að bakvið alla hegðun eru markmið og orsakir. Hún gengur út frá að ástæða hegðunar í hópi liggi mjög mikið í þörfinni á að tilheyra.

Síðastliðinn mánudag hittist hópurinn og ræddi 6. kafla en þar var farið yfir svokallaða lausnaleit. Hún gengur út á að fá barnið eða barnahópinn til þess að koma sjálft með lausnir að vandamálum og þeim árekstrum sem kunna að koma upp. Næsti kafli fjallar um hvernig nota skal hrós og hvatningu á markvissan og árangursríkan hátt.

Prenta | Netfang

Kynningarfundur fyrir foreldra um jákvæðan aga

IMG 1271

Góðmennt var á kynningarfundi um jákvæðan aga, sem haldinn var fyrir foreldra og aðstandendur Dalskólabarna miðvikudaginn 19. febrúar. 

Hildur Jóhannesdóttir, skólastjóri Dalskóla opnaði fundinn og kynnti hugmyndafræðina á bakvið aðferðina.

Lárey Valbjörnsdóttir, sérkennslustjóri Dalskóla talaði um einkenni og ástæður hegðunar.  Þátttakendur fengu í hendur töflu þar sem hægt er að lesa um mismunandi hegðun, algeng viðbrögð fullorðinna og leiðbeiningar um góðar lausnir.

Brynja Dögg Hermannsdóttir, umsjónarkennari 3. bekkjar sagði frá virkni heilans og hvernig við getum haft heilann í hendi okkar.  Þegar börn hafa náð góðum tökum á að „hafa heilann í hendi sér“ geta þau á auðveldan og einfaldan hátt útskýrt tilfinningar sínar og metið hvort þau eru tilbúin til viðræðna um hvaðeina sem þeim liggur á hjarta.  Ef hnefinn er alveg krepptur er heilinn í jafnvægi, en ef lófinn er alveg opinn, er best að bíða þar til jafnvægi hefur verið náð.

Kári Garðarsson, aðstoðarskólastjóri Dalskóla talaði um fjölbreytileika mannlífsins.  Enginn er eins en allir eru mikilvægir.  Þátttakendur fóru í leik þar sem þeir áttu að raða sér í eitt af fjórum hornum eftir því hvort þeir vildu vera ljón í einn dag, örn, kamelljón eða skjaldbaka.   Þátttakendur áttu svo að skrá niður á hverju ákvörðunin hafi verið byggð og af hverju þeir völdu að vera ekki eitt hinna dýranna.

Ragnheiður Erna Kjartansdóttir, verkefnastjóri Úlfabyggðar fjallaði að lokum um skýr skilaboð.  Þátttakendur tóku þátt í verkefni þar sem þeir fengu að prófa á eigin skinni hvernig það er að fara eftir fyrirmælum sem annars vegar innihalda neitun (ekki loka augunum) og hins vegar leiðbeiningar (hafðu augun opin).

Hér má finna ýmis skjöl sem tengjast vinnu okkar við innleiðingu á jákvæðum aga.

 

Prenta | Netfang

Fyrstu skrefin okkar í jákvæðum aga

IMG 9682Frá upphafi skólaárs hefur starfsfólk Dalskóla verið að kynna sér hugmyndafræði jákvæðs aga. En skólinn hefur ákveðið að innleiða þau tæki og tól sem fylgja hugmyndafræðinni í skólastarfið. Jákvæður agi byggir á svokallaðri “sjálfsstjórnarkenningu”, sem felur það í sér að horft er á orsakir hegðunar og það gildismat sem býr að baki þegar leitast er við að ná fram leiðréttingu. Þetta kemur í stað þess að reyna einfaldlega að breyta hegðuninni með umbun og refsingu eins og lengi hefur tíðkast með ýmsum atferlismótunarkerfum sem hafa verið ráðandi í skólakerfinu um langan tíma. Hugmyndafræðin “jákvæður agi” gengur út á það að móta skólabrag sem einkennist af umhyggju og byggist á gagnkvæmri virðingu, reisn, vinsemd og festu.

Það er ætlun starfsfólks Dalskóla að virkja foreldra í vinnunni með börnunum en mörg þeirra tækja sem jákvæður agi skapar okkur nýtast ekki síður heima fyrir. Síðastliðna tvo morgna hafa foreldrar barna í 1.-7. bekk komið á árlegar námskynningar umsjónarkennara. Áður en eiginlegar námskynningar hófust komu allir foreldrar saman á sal skólans þar sem stjórnendur fóru yfir grunnhugmyndafræðina á bakvið jákvæðan aga. Góð mæting var meðal foreldra og góður tónn í hópnum. Foreldrar barna á leikskólaaldri fá svo kynninguna áður en haustfundur þeirra hefst fimmtudaginn 26. september. Í janúar stefnum við svo að ítarlegra námskeiði fyrir foreldrahópinn.

Með því að smella hér má sjá kynninguna sem flutt var fyrir foreldra síðastliðna tvo morgna og með því að smella hér má sjá handbók um jákvæðan aga. Við munum svo mjög fljótlega virkja sérstaka upplýsingagátt með efni sem tengist jákvæðum aga hér á heimasíðu Dalskóla.

Prenta | Netfang

Fleiri greinar...

  • 1
  • 2