Skip to content

Lestrarstefna Dalskóla

Í skólanámskrá Dalskóla segir:

Hugtakið læsi (literacy) er komið úr latínu og merkir táknsetning með bókstöfum. Merking þess er víðtæk, en það vísar allt í senn til lesturs, ritunar og lesskilnings. Í Dalskóla er unnið markvisst að undirbúningi lesturs frá upphafi leikskólagöngunnar bæði með formlegri þjálfun og í gegnum leikinn. Það er gert með markvissri málörvun, hljóðgreiningu, notkun táknmynda, orðmynda og bókstafa, þulum, söng, kortavinnu, tjáningu og auðugri notkun tungumálsins. Það að vera læs felst í því að einstaklingar geti nýtt sér lestur, lesskilning og ritun í daglegum viðfangsefnum og árangur byggir mikið á auðugri máltöku og ríkulegri notkun á tungumálinu. Því betri málþroska sem barn hefur, því betur er það í stakk búið til að takast á við lestrarnám. Læsi byggir í meginatriðum á eftirfarandi þáttum:

Lestækni er færni sem hver einstaklingur þarf að læra og þjálfa og byggir á því að þekkja bókstafina og hljóð þeirra af öryggi til að vera fær um að lesa hratt og fyrirhafnarlaust úr bókstafstáknum ritmálsins.

Lesskilningur er færni sem byggir á orðaforða og málskilningi einstaklingsins. Um er að ræða hæfni til að skilja ólíka texta í mismunandi samhengi, frá mismunandi sjónarhornum, tilgangi og markmiði.

Ritun og stafsetning er færni sem byggir á öllum þáttum tungumálsins. Að grunni til reynir stafsetning mjög á hljóðkerfisþáttinn, einkum færni við að sundurgreina hljóð orðanna til að vera fær um að kortleggja þau með réttum bókstöfum.

Merkingarsköpun er þegar upplifandinn/lesandinn/áhorfandinn leggur það sem hann er að upplifa og reyna við alla sína fyrri reynslu og upplifunin fær merkingu og ný reynsla eða þekking verður til.

Samskipti er um það hvernig við meðhöndlum efniviðinn, reynsluna, merkinguna eða þekkinguna. Samskipti á ekki aðeins við samskipti fólks heldur einnig um margs konar miðlun og tjáningu.

Lestrarstefna Dalskóla er sameiginleg með leik- og grunnskólum í Grafarholti og Úlfarsárdal. Hana er að finna hér.