Skip to content

Lestrarstefna Dalskóla

 

Í skólanámskrá Dalskóla segir:

Hugtakið læsi (literacy) er komið úr latínu og merkir táknsetning með bókstöfum. Merking þess er víðtæk, en  það vísar allt í senn til lesturs, ritunar og lesskilnings. Í Dalskóla er unnið markvisst að undirbúningi lesturs frá upphafi leikskólagöngunnar bæði með formlegri þjálfun og í gegnum leikinn. Það er gert með markvissri málörvun, hljóðgreiningu, notkun táknmynda, orðmynda og bókstafa, þulum, söng, kortavinnu, tjáningu og auðugri notkun tungumálsins. Það að vera læs felst í því að einstaklingar geti nýtt sér lestur, lesskilning og ritun í daglegum viðfangsefnum og árangur byggir mikið á auðugri máltöku og ríkulegri notkun á tungumálinu. Því betri málþroska sem barn hefur, því  betur er það í stakk búið til að takast á við lestrarnám. Læsi byggir í meginatriðum á  eftirfarandi  þáttum:

Lestækni  er færni sem hver einstaklingur þarf að læra og þjálfa og byggir á því að þekkja bókstafina og hljóð þeirra af öryggi til að vera fær um að lesa hratt og fyrirhafnarlaust úr bókstafstáknum ritmálsins.

Lesskilningur  er færni sem byggir á orðaforða og málskilningi einstaklingsins.   Um er að ræða hæfni til að skilja ólíka texta í mismunandi samhengi, frá mismunandi sjónarhornum, tilgangi og markmiði.

Ritun og stafsetning er færni sem  byggir á öllum þáttum tungumálsins. Að grunni til reynir stafsetning mjög á hljóðkerfisþáttinn, einkum færni við að sundurgreina hljóð orðanna til að vera fær um að kortleggja þau með réttum bókstöfum.

Merkingarsköpun er þegar upplifandinn/lesandinn/áhorfandinn leggur það sem hann er að upplifa og reyna við alla sína fyrri reynslu og upplifunin fær merkingu og ný reynsla eða þekking verður til.

Samskipti er um það hvernig við meðhöndlum efniviðinn, reynsluna, merkinguna eða þekkinguna. Samskipti á ekki aðeins við samskipti fólks heldur einnig um margs konar miðlun og tjáningu.

Lestrarstefna Dalskóla byggir á drögum að Lestrarstefnu fyrir grunnskóla Reykjavíkur 2011,  nýrri aðalnámskrá leik- og grunnskóla ásamt Starfsáætlun skóla- og  frístundsviðs 2013.

 

Úr lögum og reglugerðum

Börn læra í leik og daglegu starfi á leikskólaaldri, innan sem utandyra.  Þau læra í samvinnu við önnur börn og Þegar þau fá stuðning og hvatningu frá hinum fullorðnu ( Aðalnámskrá leikskóla, 2011).

Í grunnskóla þarf að skapa skilyrði fyrir nemendur svo að þeir fái notið bernsku sinnar og efli með sér sjálfstraust og félagsfærni, virki sköpunarkraft sinn og rækti skilning á manngildi (Aðalnámskrá gunnskóla, 2011).

Í frístundastarfi er haft það leiðarljós að hver einstaklingur fái að njóta sín og þroskast í umhverfi sem einkennist af hlýju, öryggi og virðingu. Lögð er áhersla á að þroska félagslega færni í samskiptum gegnum leik og starf svo og virðingu fyrir sjálfum sér, öðrum og umhverfinu (Eitthvað fyrir þig – bæklingur um íþrótta- og tómstundastarf í Reykjavík)

Leikskólastarf byggir á lögum um leikskóla þar sem lögð er áhersla á gildi leiksins.  Við skipulagningu starfs með börnum á leikskólaaldri skal jafnframt taka mið af leiðarljósum leikskóla, grunnþáttum menntunar og námssviðum leikskóla. Námssvið leikskólans eiga að vera samþætt og samofin öllu starfi leikskóla og taka mið af sex grunnþáttum menntunar ( Aðalnámskrá leikskóla, 2011) Námssvið leikskóla samkvæmt Aðalnámskrá eru : Læsi og samskipti, heilbrigði og vellíðan, sjálfbærni og vísindi, sköpun og menning. Námssvið leikskóla eru sambærileg við námsgreinar í grunnskóla en eru mun víðari og taka til alhliða uppeldis og menntunar.

 

Grunnskólastarf byggir á lögum um grunnskóla þar sem lögð er áhersla á formlegt nám. Hlutverk hans er, í samvinnu við heimilin, að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldri þróun.....Grunnskóli skal stuðla að víðsýni hjá nemendum og efla færni þeirra í íslensku máli, skilning þeirra á íslensku samfélagi, sögu þess og sérkennum, (Aðalnámskrá grunnskóla, 2011).

 

Frístundastarf byggir m.a. á borgarráðssamþykkt frá 4. mars 2010 þar sem frístundaheimilin eigi að nota lýðræðislega starfshætti, efla hæfni barnanna til að móta sjálfstæðar skoðanir og hafa áhrif á umhverfi sitt og aðstæður.

Það er leikur að lesa

Við gerð fyrstu lestrarstefnu Dalskóla var hugtakið læsi þrengt og það hugsað út frá lestri, lestrarnámi og undirbúningi þess. Sú stefna felur  í sér alhliða vinnu með tungumálið, táknin, skilninginn og lesturinn  á víðum grunni allt frá tveggja ára aldri. Í lestrarstefnunni er því minna tekið til umhverfislæsis, tilfinningalæsis, talnalæsis og fleiri þátta  sem rúmast í víðri skilgreiningu og eru alls ekki útilokaðir í vinnunni en eru ekki tilteknir sem hluti markmiðasetningar í lestrarstefnunni.

Lestur er lykill að öllu námi og því þarf lestrarkennsla og lestrarþjálfun á öllum stigum að vera fjölbreytt og markviss. Nauðsynlegt er að vekja áhuga nemenda á lestri á öllum skólastigum og að lestrarkennsla og lestrarþjálfun haldi áfram alla skólagönguna. Ritun gegnir sífellt stærra hlutverki í daglegu lífi fólks með tilkomu ýmissa samskiptamiðla og því mikilvægt að efla lestur og ritun á öllum aldursstigum. Málörvun og hugtakavinna, lestur og ritun á öllum stigum þarf að hafa forgang og fá mikið vægi í skólastarfinu.

Allir starfsmenn Dalskóla eru íslenskukennarar og allir starfsmenn þurfa að leggja áherslu á að gera börnin læs á sitt námssvið, sína námsgrein og nota aðferðir til að auka orðaforða, málskilning og lesskilning nemenda og barna á öllum aldri.

Með því að lesa fyrir börn á leikskólaaldri daglega og að nemendur á grunnskólaaldri lesi eða hlusti á bókmenntir fá þau aukinn skilning á nærumhverfi sínu og fá innsýn í aðra menningarheima.

Læsi, lesskilningur og samskipti.

Börn eru félagsverur sem hafa ríka þörf fyrir samskipti við aðra.  Þau hafa m.a. þörf fyrir að spyrja spurninga, skiptast á á skoðunum og ræða hugmyndir sínar, tilfinningar og líðan.  Í gefandi samskiptum og leik eykst félagsfærni og sjálfsmynd styrkist.  Læsi í leikskóla felur í sér þekkingu, leikni og hæfni barna til að lesa í umhverfi sitt og tjá upplifun sína, tilfinningar og skoðanir á fjölbreyttan hátt.  Auk tungumálsins nota þau til dæmis ýmiskonar hljóð,snertingu, látbragð og leikræna tjáningu, tónlist, myndmál og dans.  (Aðalnámskrá leikskóla, 2011)

Markmið í starfi með börnum á leikskólaaldri í Dalskóla er að efla málþroska, auka orðaforða.  Efla ber hlustun og tjáningu barnanna, frásögn, sögugerð, þekkingu á bókstöfum og áhuga á ritmáli – og hugtakaskilning og þjálfa grunntækni læsis.  Í Dalskóla er lesið daglega og sögur sagðar í samræmi við þroska og áhuga barna á hverju aldursskeiði.  Notaðar eru loðtöflur, kubbar, myndir á spjöldum, dýr.  Börnin koma saman í litlum hópum þar sem  unnið er markvisst með málörvun, rím, þulur, söngva, sögur og framsögn.  Börnunum gefst kostur á að ná sér í bækur, ritmálið er haft sýnilegt og mál og texti er sjáanlegur auk mynda úr daglegur starfi.  Farið er í útikennslu þar sem notaðir eru pokar með ýmsu kennsluefni svo sem litaspjöldum, gróðurvísi , formum í náttúrunni og fl. Í vettvangsferðum gefst börnunum tækifæri til þess að tjá sig og öðlast leikni í að lesa í umhverfið.

Börn hefja grunnskólagöngu sína talandi á móðurmáli sínu, hvort sem er að ræða íslensku, táknmál eða annað tungumál. Strax á leikskólastiginu þarf skólinn að verða virkur þátttakandi í máluppeldi barnsins ásamt heimili þess. Á grunnskólastigi er mikilvægt að þjálfa góða lestrarfærni því hún er undirstaða ævináms og þess að geta aflað sér upplýsinga sem gera kleift að taka virkan þátt í lífi og menningu þjóðarinnar. (Aðalnámskrá grunnskóla, 2011)

Markmið í starfi  með nemendum á grunnskólaaldri er áfram að efla málþroska og auka orðafora, þjálfa virka hlustun, tjáningu, frásögn og sögugerð. Með markvissri lestrar- og ritunarkennslu er lögð rækt við leið nemandans til sjálfstæðis svo hann geti valið sér fjölbreytt lesefni  og margskonar texta í tengslum við nám, þörf og áhuga.

Í frístundastarfi er lögð áhersla á að vinna með bókmenntaarfinn, lesefni, tjáningu og framsetningu efnis á fjölbreyttan máta. Þar gefa börnin út fréttablöð, sækja bókasöfn, hafa gott aðgengi að bókum, vinna með hugarkort til að setja fram verkefni og fleiri verkefni sem stuðla að læsi og góðum lestrarvenjum.

Sjá nánar um markmið, hæfniviðmið, kennsluaðferðir og mat sett niður eftir aldri undir krækjunni lestrarstefna Dalskóla.

Lestrarerfiðleikar

Í Dalskóla er  lestrarerfiðleikum (dyslexiu) mætt með markvissum kennsluháttum í samvinnu við foreldra og lögð áhersla á að grípa strax inn í ef grunur vaknar um lestrar- og máltökuerfiðleika hjá nemenda. Skimað er fyrir lestrarerfiðleikum í 3. 6. og 9. bekk með Logos mælitækinu.

Mikið kapp er lagt á góðan árangur í lestri, lesskilningi og almennri íslenskuþekkingu. Við nýtum fjölbreyttar kennsluaðferðir í lestrarkennslu en auk þess leggjum við áherslu á að þjálfa lesturinn með PALS aðferðinni (Peer Assisted Reading Strategies) eða pör að læra saman.

Á leikskóladeildum eru ýmsar aðferðir málörvunar nýttar, mikið er lesið fyrir börnin og bækur og ritmál er sýnilegt inni á deildum.  Stuðst er við aðferðir byrjendalæsis að einhverju leyti.  Annars er hver stund á deginum notuð til að hvetja börnin til að tjáningar og hlustunar.

Í frístundastarfi er lögð áhersla á gott aðgengi að bókum og bókasafni og til staðar er lestrarkrókur. Reglulega lesa frístundastarfsmenn sögur fyrir börnin.

 

Mat á læsi og námsferli nemenda

Á leikskóladeildum

 • Þroskalisti sem byggður er á heimildum  Portage Guide þroskamati, Þroskahjóli, Skólaskrifstofu Mosfellsbæjar, þroskalista Heilsugæslu höfuðborgarinnar og fl.  Skemað fylgir börnunum áfram þannig að auðvelt er að fylgja eftir framförum og færni sem þarf að ýta undir.
 • Sjálfsmynd og félagsfærnipróf hjá 1-6 ára börnum en hluti starfsfólk tekur listann og metur færni barnanna. Yngstu börnin eru öll metin eftir viðmiðum þessa lista og ætlunin er að fylgja honum hér eftir fyrir hvert barn.   Niðurstöður sýndar og ræddar í  foreldraviðtölum og gerðar áætlanir í samvinnu við foreldra um þá þætti sem þarf að bæta eða að vinna sérstaklega með.
 • Hljóm 2 hjá 5 ára börnum er lagt fyrir árlega
 • Matslisti varðandi líðan og verkefni er lagður fyrir 4-6 ára börn sem tengist daglegu starfi barnanna, listinn var þróaður í Dalskóla. Matlisti barnanna sem lagður er fyrir elstu börnin, þau sem fara í fyrsta bekk að hausti er ítarlegri.  Spurningarlistinn er lengri og spurt er út í samstarfið við 1. bekk á síðasta vetri og líðan þeirra og væntingar gagnvart skólaskilunum sem í hönd fara að hausti.
 • Teymis- mats- og skilafundir vegna einstakra barna, þessa fundi sitja eftir atvikum sálfræðingar, talmeinafræðingur, sérfræðingar greiningastöðvar, kennsluráðgjafar. Slíkir fundir hafa mikið að segja um innra mat og þróun á starfsumhverfi einstakra barna, deilda og starfsmanna.
 • Dalskólaforeldrakannanir framkvæmdar sem hluti innra mats sem eru nýttar á kennslufræðilegum grunni.
 • Smiðjulok.
 • Reglulegar skráningar á starfi og þroska barna, safnað saman í ferilmöppur sem nýttar eru í foreldraviðtölum.

Í grunnskólahluta:

 • Læsisskimun – læsi í 2. bekk
 • Leið til læsis í 1. bekk og Hljóðfærni í 1. bekk
 • Talnalykill í 3. bekk
 • Hraðapróf í lestri 3x á vetri
 • Námsviðtöl 3x á ári
 • Smiðjulok
 • Dalskólaforeldrakannanir um sérstakt Dalskólastarf
 • Teymisfundir vegna einstakra barna
 • Tengslakannanir
 • Lesskilning og hraðapróf í lestri í gegnum PALS
 • Logos skimanir í 3. 6. og 9. bekk
 • Lesferill 3 sinnum á ári í öllum árgöngum