Skip to content

Móttaka nemenda af erlendum uppruna

Þegar nemendur erlendis frá hefja nám við skólann fer fram móttökuviðtal. Móttökuviðtalið sitja foreldrar, nemandi (eftir atvikum), túlkur, skólastjórnandi, fulltrúi frá þjónustumiðstöð, fulltrúi frá frístundamiðstöð (eftir atvikum) og aðrir þeir sem nauðsyn er talin á að sitji viðtalið. Afar mikilvægt er að foreldrar sitji viðtalið en ekki skyldmenni eða vinir og að fenginn sé túlkur í öll viðtöl. Mikilvægt er að barnið sé ekki byrjað í skólanum þegar þetta viðtal fer fram ef nemandinn er að koma fá landssvæðum utan Evrópu. Skólastjóri ber ábyrgð á því að barn byrji ekki í skólanum án tilskilinna heilbrigðisvottorða.

Útskýrt er í viðtalinu hvernig fyrirkomulag þjónustunnar við nemandann er fyrstu vikurnar í skólanum. Þá er starf félagsmiðstöðvarinnar kynnt auk þess sem fulltrúi þjónustumiðstöðvarinnar kynnir þjónustuna þar og þá þjónustu sem boðið er upp á í hverfinu

Móttökuáætlun

  • Foreldrar og nemandi (eftir atvikum) koma í heimsókn á fund í svokallað móttökuviðtal og fenginn er túlkur ef tungumálið er ekki skiljanlegt okkur í skólanum. Þann fund sitja skólastjóri, fulltrúi þjónustumiðstöðvar og frístundar. Til er upplýsingasöfnunareyðublað sem fyllt er út. Ábyrgð: Skólastjóri
  • Fjölskyldunni er kynnt þjónusta heilsugæslunnar og þjónustumiðstöðvar á þessum fundi – fulltrúi þjónustumiðstöðvar athugar með tengingar við aðrar opinberar stofnanir – athugar með rafrænt aðgengi – íslykil ofl. Ábyrgð: þjónustumiðstöð
  • Í þessu fyrsta viðtali er staða nemandans metin, almenn þroska- og félagsstaða og staða hans í íslensku metin. Ábyrgð: móttökuhópur
  • Viðkomandi bekkur eða leikskólahópur er undirbúinn og ef nemandinn er grunnskólanemandi fær hann tvo skólavini til aðstoðar. Ábyrgð: kennari
  • Foreldrafélagi verður gert viðvart svo huga megi sérstaklega að kynningar- og upplýsingamálum er viðkoma starfi foreldrafélagsins. Ábyrgð: frístundaforstöðumaður
  • Myndað teymi um nemandann sem í situr kennari, sérkennari (og námsráðgjafi eftir þörfum) – teymið hittist með foreldrum þegar fjórar vikur eru liðnar af skólagöngunni með túlki og hittist að jafnaði á mánaðar – 6 vikna fresti. Ef aðlögun og máltaka gengur vel er dregið úr tíðni fundanna.
  • Metin er staða nemandans í íslensku reglulega (Milli mála) og gera með umsjónarkennara einstaklingsáætlanir. Ábyrgð: sérkennari 

Dalskóli mun leita þekkingar hjá SFS um allt það er flýtir fyrir aðlögun nemandans og fjölskyldu hans að íslensku skólasamfélagi, þaðan koma ýmis góð og gagnleg smárit til upplýsingar. Sjá móttökuáætlun Skóla- og frístundasviðs og upplýsingar og hagnýtráð í vefritið: Heimurinn er hér

Til eru bæklingar frá SFS um frístundastarf og skólastarf á mörgum tungumálum. Einnig er til smáforrit sem þýðir helstu spurningar og umræðuþætti skólaumhverfisins yfir á mörg tungumál, sem nota má í viðtölum við foreldra og börn, ef vel tekst til er dregið úr túlkaþjónustu sem fram vindur.