Skip to content

Jákvæður agi í Dalskóla

Strax í árdögum skólans var leitast við að samræma viðbrögð starfsfólks við agabrotum. En það er ekki nóg. Allt snýst þetta um skólabraginn og náungakærleikann. Að okkar mati töldum við mikla þörf á að samræma okkur í vinnuaðferðum svo sýn skólans um að öllum geti liðið hér vel og að börnin nái hér að vaxa og dafna verði að veruleika. Við fundum aðferð sem samræmist okkar mannræktarhugmyndum.  Aðferðin nefnist JÁKVÆÐUR AGI. Það var því ákveðið að  taka upp og innleiða Jákvæðan aga í Dalskóla, en það er uppeldis- og samskiptaaðferð sem byggir á gagnkvæmri virðingu og samstarfi. Þessi aðferð byggir á sjálfstjórnarkenningunni og er náskyld uppbyggingarstefnunni. Jane Nelsen höfundur stefnunnar leggur upp með að mistök séu til þess að læra af þeim, að okkur þurfi ekki fyrst að líða illa til þess að okkur gangi betur og að bakvið alla hegðun eru markmið og orsakir. Hún gengur út frá að ástæða hegðunar í hópi liggi mjög mikið í þörfinni á að tilheyra. Í Dalskóla höfum við ekki mikla trú á atferlismótunaraðferðum á hópa, nema þegar um afmörkuð viðfangsefni er að ræða og atferlismótun getur einnig gert mikið gagn í einstaklingsmótun. Við leggjum áherslu á samstarf við nemendur, umburðarlyndi gagnvart ólíkum skoðunum og þar sem við höfum verið að þróa bekkjarfunda- og samverufundakerfið,fellur jákvæður agi vel að þeim hugmyndum sem við höfum um uppeldi æskunnar. Aðferðin gerir ráð fyrir að við séum tilbúin til þess að gefa okkur tíma til að láta hlutina virka, prófa okkur áfram, taka áhættu. Með jákvæðum aga viljum við kenna:

i.        Sjálfstraust – ÉG GET. Til þess að þróa sjálfstraust þurfa börnin öruggt andrúmsloft þar sem þau geta prófað sig áfram með nám og hegðun án þess að felldir séu harðir dómar um velgengni eða mistök, rétt eða rangt.

ii.       Að tilheyra – ÉG TILHEYRI OG MÍN ER ÞÖRF. Til að öðlast tilfinningu fyrir mikilvægi í samfélaginu þurfa nemendur að upplifa að deila tilfinningum, hugsunum og hugmyndum með öðrum og finna að þær séu teknar alvarlega.

iii.       Áhrif – ÉG HEF ÁHRIF Á UMHVERFI MITT OG LÍF. Nemendur munu reyna að hafa áhrif til góðs eða ills. Til að nemendur öðlist tilfinningu fyrir áhrifum og valdi yfir þeirra eigin lífi, þurfa þeir að upplifa umhverfi sem leggur áherslu á áreiðanleika og hvatningu.

iv.      Innsæi – Við viljum þjálfa hæfni nemenda til að skilja tilfinningar og að geta notað þann skilning til að þróa sjálfsaga, sjálfsstjórn og að læra af reynslunni.

v.       Samskiptahæfileika – Við viljum þjálfa hæfni nemenda til að vinna með öðrum með góðum samskiptum, skipulegri samvinnu, samningum, virkri þátttöku, hlustun og samhygð.

vi.      Ábyrgð – Við viljum þjálfa hæfni nemenda til að bregðast við takmörkunum og afleiðingum í daglegu lífi með ábyrgð, aðlögunarhæfni, sveigjanleika og heiðarleika.

vii.      Dómgreind – Við viljum þjálfa hæfni nemenda til að nýta reynslu sína og þekkingu til að meta aðstæður og aðgerðir með hliðsjón af réttu gildismati. Börnin og unga fólkið okkar þróa með sér góða dómgreind þegar þau hafa tækifæri og hvatningu til að æfa sig í að meta kosti og taka ákvarðanir í umhverfi sem leggur áherslu á viðleitnina til að gera betur.