Skip to content

Kennsluhættir og stefna skólans

Stefna skólans er að öllum líði vel og börnin fái að dafna, nema og blómstra.

Í skólanum er lögð rækt við sjálfstæð vinnubrögð, frumkvæði, skapandi hugsun og skapandi starf.

Lögð er áhersla á að rækta með börnum ábyrgð á námi sínu og framkomu.

Einkennisorð skólans eru: Hamingjan er ferðalag

Dalskóli er menningarskóli sem leggur rækt við skemmtilegt og skapandi skólastarf.  Auk þess er Dalskóli syngjandi skóli, þar sem fram fer daglegur samsöngur.

Menntastoðirnar þrjár leikskólastoðin, frístundastoðin og grunnskólastoðin vinna saman svo dagur barnsins verði sem gjöfulastur og þekking starfsfólks hverrar stoðar nýtist öllum.

Í Dalskóla er unnið að því að þróa öflugt lærdómssamfélag starfsfólks sem byggir á þverfaglegu samstarfi þar sem lögð er rækt við það að læra í sameiningu. Hér er skólasamfélag þar sem fram fer einstaklings- og hópamiðað nám með markvissum og skipulögðum hætti.

Unnið er að því að samfella verði í  námi og leik og það myndi heild.

Lögð er áhersla á sveigjanlega kennslu- og starfshætti og samvinnu nemenda. Einnig er áhersla lögð á samþættingu námsgreina og þemabundið nám og starf innan árganga og á milli árganga.

Í skólanum ríkir viðhorf virðingar fyrir einstaklingnum og sérkennum hans.

Allir kennarar skólans vinna saman í teymum að undirbúningi náms og kennslu.

Unnið er með yngri nemendur á leikskólaaldri að hluta til í anda hugsmíðahyggju (constructivism). Í hugsmíðahyggjunni fær barnið  tækifæri til að byggja ofan á fyrri reynslu og þekkingu í námi og starfi. Hluti starfsins er með könnunaraðferðinni (project approach) en aðferðarfræðin  byggir í megin áherslum á á frumkvæði, þátttöku og stjórnun barnanna auk þekkingarleitar. Á leikskólaaldri er einnig mikil áhersla á skráningu starfs í ferilmöppu. Sjá nánar í kaflanum: Nánar um starfið á leikskóladeildum.

Í kennslustundum barna á grunnskólaaldri er leitast við að hafa skýr markmið í hverri kennslustund og að ávallt sé vandað til verka.

Í Dalskóla er lögð áhersla á fjölbreyttar kennslu- og starfsaðferðir svo allir fái verkefni við hæfi og að námið verði innihaldsríkt og merkingarbært.

Stuðningskennsla fari að mestu leyti fram í umsjónarbekknum í anda hugmyndafræðinnar um skóla margbreytileikans. Stuðningskennsla fer einnig fram í minni hópum í sérkennsluveri.

Dalskóli leggur áherslu á umsjónarhópa. Þeir geta ýmist verið aldursblandaðir eða hreinn aldurshópur eftir samsetningunni í stækkandi skóla.

Í Dalskóla er skapandi list- og verkgreinanámi gert hátt undir höfði, í tónmenntarkennslunni er byggt að nokkru á námsnálgunum Carls Orffs.

Í frístundahluta skólans Úlfabyggð er lögð áherlsa á skapandi og frjótt frístundastarf þar sem börn hafa margt um það að segja hvernig starfið þróast. Lýðræði, samtakamáttur og gleði ríkja í starfi. Sjá nánar um Úlfabyggð í kaflanum Frístundastarf í Dalskóla.

Í skólasamfélaginu og nærsamfélaginu er lagt kapp á samstarf nemenda foreldra og starfsmanna og að það samstarf sé opið og nærandi, byggt á gagnkvæmu trausti þar sem allir finni að þeir hafa mikið fram að færa til samfélagsins. Skólinn í samvinnu við foreldra hefur samið áætlun um foreldrasamstarf.

Dalskóli leggur áherslu á heilbrigðan lífsstíl og útveru og einn af hornsteinum skólans er útikennsla. Útikennsla er samofin skólastarfinu allt árið um kring. Stefnan er að halda áfram ótrauð í útinámi, leik og vinnu barna utandyra á komandi skólaárum. Í þemanámsstarfi/smiðjunámi er útikennsla hluti starfsins. Nemendur fara ásamt kennurum, í lengri og styttri vettvangsferðir sem tengjast ýmsum námsgreinum og falla undir markmið Aðalnámskrár grunn- og leikskóla.  Útikennsla er hluti af heildstæðri vinnu með börnunum á öllum aldri.  Nálgun og viðfangsefni fer eftir aldri og þroska barnanna.

Dalskóli er skóli á greinni grein og dró Grænfánann að húni vorið 2012. Skólinn stefndi auk þess á að flagga menningarfánanum og var í apríl 2012 valinn fyrsti skólinn í Reykjavík til þess að taka formlega við viðurkenningu um að vera menningarskóli. Skólinn hefur sett sér umhverfisstefnu þar sem lögð er áhersla á að auka þekkingu og virðingu nemenda fyrir umhverfi sínu, skapa jákvætt viðhorf nemenda og starfsmanna til umhverfismála og þroska vitund um lýðræði og láta sig umheiminn varða.

 

Leiðir að stefnu skólans

Einkennisorð skólans eru: HAMINGJAN ER FERÐALAG.  Veturna 2014-2016 var unnið að naflaskoðun um gildi okkar. Þessi vinna fór fram með foreldrum, nemendum og starfsmönnum. Þar kom í ljós mikill samhljómur um hvaðan við komum, hvar við stöndum og hvert við viljum halda. Allir hópar völdu gildishlaðin orð. Niðurstaða kosninganna lögðust þannig :

Börnin kusu: vinátta, virðing og gleði

Starfsmenn kusu: gleði, samvinna og sköpun

Foreldrar kusu: gleði, vinátta og metnaður

Í framhaldinu var ákveðið að byggja einkennisorð skólans á þeirri gildishlöðnu setningu sem öll þessigildi felast í og hefur fylgt skólanum frá upphafi: HAMINGJAN ER FERÐALAG.

 

Leikskóla- og grunnskólalög og aðalnámskrá grunn- og leikskóla slá sambærilega tóna. Nám og þroski er ferðalag. Í gleði og vináttu, í samvinnu og skapandi umhverfi með metnað í farteskinu stuðlum við að hamingju sem á að einkenna skólaferðalagið og Dalskóla.

Í Dalskóla vinnum við með og í fjölbreytileika, viljum auka skilning barna á hlutverki sínu í nærsamfélagi og umhverfi, þjálfun hæfni þeirra og til þess að láta til sín taka og láta sig varða samferðamenn sína, skólann sinn og Dalskóla.

Hugtakið virðing hefur í sér að við viðurkennum og í því að viðurkenna felst umburðarlyndi. Það sem helst tryggir virkt umburðarlyndi er samvistir og þekking. Það er mikilvægt að börn og starfsmenn Dalskóla ásamt öllum íbúum Íslands temji sér að lifa í friði þrátt fyrir fjölbreytileikann og þá í fullri reisn.

Einn hornsteinninn okkar er virkni og félagsleg þátttaka barna, en með því að leggja slíkan hornstein er verið að stuðla að ábyrgð á eigin námi og líðan, það er verið að kenna þeim að þau hafa val um það með hvernig viðhorfum þau ganga í mót hverjum nýjum degi. Þetta er gert með markvissum samvinnuaðferðum, hópumræðum og lýðræðislegum vinnubrögðum. Þau fá að láta ljós sitt skína, þau vinna með sterkar hliðar sínar og læra að þekkja þær og þarfir sínar. Með þessu eru börn líklegri til að öðlast trú á eigin getu.

Með því að viðurkenna fjölbreytileikann og nýta kennsluaðferðir sem nýta allar greindir barnanna trúum við því að hver og einn nýti sínar góðu gáfur, auki þroska sinn og hæfni samhliða á þeim sviðum sem eru ekki í hæsta styrkleikaflokki. Það þarf líka að horfa til þess að börn hafa mismunandi hæfni og hafa jafn mismunandi bakgrunn og þau eru mörg. Í Dalskóla munum við í okkar aðferðarfræði kappkosta við að byggja á fyrri þekkingu nemandans svo undirstaðan sé nemandanum ljós og hann verður þannig virkari þátttakandi í eigin námi. Slík kennslufræðinálgun á jafnt við fyrir börn á leikskólaaldri sem og grunnskólaaldri.

Kennarar og starfsmenn Dalskóla vinna saman að því að skipuleggja hvetjandi námsumhverfi og aðstæður. Kennarar eru ekki einangraðir í kennslustofum eða leikskólastofum og þeirra hlutverk er ekki eingöngu að koma ákveðinni þekkingu til skila til nemenda og barna heldur hvetja til dáða með því að vekja áhuga eða forvitni á viðfangsefninu. Kennarar skapa ramma utan um vinnu nemenda og barna í hvetjandi umhverfi og eru  til ráðgjafar / handleiðslu við lausn hinna ýmsu viðfangsefna.

Lögð er áhersla á samvinnu kennara og teymisvinnu þannig að kennarar beri sameiginlega ábyrgð á kennslu hópa og árganga allt frá tveggja ára aldri. Tónlistarnámi og frístundastarfi er fléttað inn í starf barnanna á öllum aldri. Með samvinnu gefst kennurum kostur á að njóta sín betur í starfi. Þeir geta samnýtt mismunandi hæfni og þekkingu. Þannig gefst kennurum kostur á að leysa hin ýmsu mál sem upp koma sameiginlega og sjá með því móti fleiri lausnir. Einnig gefst þeim tækifæri til að vinna markvisst saman að skólaþróun.

Í Dalskóla er mikil áhersla lögð á öflugt, frjótt og lifandi skólastarf.

Sköpunarkraftur og hugmyndaflug nemenda og barna er virkjað og þau fá þjálfun til þess að takast á við ýmis verkefni sem reyna á hæfni til þess að leysa vandamál og nota skapandi og gagnrýna hugsun.

Kennarar gegna lykilhlutverki í skólum. Þeir byrja daginn á því hjá öllum hópum að fara yfir daginn og hrynjandi í húsi, þá tekur við íslenska og lestur hjá börnum á grunnskólaaldri. Dalskóli leggur mikla áherslu á lestrarnám og lesskilning fyrir öll börnin. Hjá börnum á leikskólaaldri hefst morguninn á rólegri stund þar sem börnin hefja daginn í frjálsum leik og morgunmat.  Í samverustundum fer fram málörvun og lestur fyrir börnin á leikskólaaldri. Lögð er áhersla á að taka vel á móti hverju barni, allir eiga að finna sig örugga, en viðmót hefur mikla þýðingu varðandi góð samskipti, traust og tengsl.

Í Dalskóla er mikil áhersla lögð á gott andrúmsloft, öflugt lærdómssamfélag ungra sem aldinna. Andrúmsloftið á að vera hvetjandi og hlúa að velferð einstaklinganna sem mynda skólasamfélagið. Allir sem til okkar leita eiga að finna sig velkomna.

Lögð er áhersla á samvinnu heimilis og skóla og virkt foreldrasamstarf. Einnig er lögð áhersla á tengsl við umhverfið eða grenndarsamfélagið.

Mikilvægt er að móta og styðja fjölbreytt félagsstarf í skólanum. Skólinn á vera menningarmiðstöð hverfisins.

Í skólanum er unnið með könnunarnám þar sem viðfangsefni eru tekin fyrir og rannsökuð vel og vandlega niður í kjölinn. Viðfangsefnin eru merkingarbær og jafnframt er unnið út frá hugmyndum og áhuga barnanna.

Á yngstu deildum Dalskóla er unnið í könnunarleiknum þar sem uppgötvun leiðir til skilnings.

Leikurinn er hornsteinn starfsins á leikskóladeildunum. Frjáls og sjálfsprottinn leikur veitir börnum gleði og ánægju og í leiknum taka börn þátt á sínum forsendum. Það er á ábyrgð fullorðinna að útbúa umhverfi barnanna þannig að það leiði til góðra félagslegra samskipta, örvi þroska og nám. Í Dalskóla er vandaður leikefniviður ásamt náttúrulegum efnivið. Í leikskólahlutanum er verið að innleiða veturinn 2017 - 2018 Leikur að læra auk þess sem leikskólahlutinn tekur formlega þátt í verkefninu Heilsueflandi leikskóli

Til þess að slíkt gangi eftir þurfum við að ná árangursríkum samskiptum við þá aðila sem tengjast skólanum svo sem Foreldrafélag Dalskóla, Íþróttafélagið Fram, Tónlistarskóla Sigursveins D. Kristinssonar, Skólalúðrasveit Grafarvogs, Þjónustumiðstöð Árbæjar og Grafarholts o.fl.

Dalskóli er staðsettur í nánd við fjölbreytta náttúru. Lögð er áhersla á kennslu tengda náttúrunni. Umhverfismennt er sjálfsagður þáttur í náttúrufræðikennslu skólans. Dalskóli fékk grænfánann afhentan á vormánuðum 2012 eftir að hafa unnið að verkefninu frá stofnun skólans. Í skólanum starfar umhverfisnefnd skipuð stjórnanda, húsverði, kennurum, nemendum og foreldrum. Markmið hópsins er að innleiða grænar áherslur skólans. Nú er unnið að nýjum umhverfismarkmiðum og er stefnan sett á að sækja um endurnýjun grænfánans á skólaárinu.