Eineltisáætlun

Tilgangurinn með eineltisáætlun er að koma í veg fyrir einelti og aðra andfélagslega hegðun. Markmiðið er að skapa umhverfi og skólabrag þar sem allir geti notið sín í leik og starfi.

Allt starf í Dalskóla miðar að því að nemendum og starfsfólki líði vel við nám og starf. Í skólanum verður lögð áhersla á að skapa skólamenningu þar sem einelti fær ekki þrifist. Það verður opinn og lýðræðislegur skólabragur þar sem við hvetjum hvert annað til dáða, þar sem sérkenni einstaklinga njóta sín, þar sem byggt er á trausti og þar sem ríkir víðsýni og virðing.

Fylgst er með líðan nemenda í skólanum, m.a. með líðanakönnunum og tengslakönnunum.

Helstu niðurstöður fjölda rannsókna benda til að á bilinu 5-10% allra barna á grunnskólaaldri verði fyrir einelti. Einelti er langvarandi ofbeldi, líkamlegt eða andlegt þar sem einn eða fleiri níðast á einum sem ekki kemur vörnum við. Það felur í sér misbeitingu valds þar sem gerandinn beitir hótunum og vill ráða yfir þolandanum með ofbeldi eða útskúfun. Einelti getur birst á margan hátt:

 • Félagslega – barnið skilið útundan í leik, barnið þarf að þola svipbrigði, augngotur, þögn eða algert afskiptaleysi eða lognar sakir
 • Andlega – barnið er þvingað til að gera eitthvað sem stríðir algerlega gegn réttlætiskennd þess og sjálfsvirðingu
 • Líkamlega – gengið er í skrokk á barninu.
 • Munnlega – uppnefni, stríðni eða niðurlægjandi athugasemdir. Hvíslast er á um barnið, flissað og hlegið, niðrandi bréf, hótanir, neikvæð netskilaboð, sms

Einelti er ekki bundið við aldur en rannsóknir benda til að það sé algengast á aldrinum 9-12 ára.

Í Dalskóla verður tekið á eineltismálum strax og þau koma upp. Nemendur og foreldrar eiga að geta treyst því að brugðist sé strax við og á viðeigandi hátt ef upp koma vandamál af einhverju tagi s.s stríðni, einelti eða öðru sem viðkemur líðan nemenda.

 • Umsjónarkennari/leikskólakennari athugar/rannsakar málið og skoðar samskiptin milli þolenda og meintra gerenda, það gerir hann í skólastofunni, í frímínútum, rútu, íþróttum og frístund ef við á. Hann fær  einnig starfsmann í lið með sér í þessari skoðun sem þarf að vera markviss og unnin af alúð og virðingu. Hann ræðir við þolanda og geranda. Umsjónarkennari/leikskólakennari vinnur að bættum samskiptum í bekknum og ef eineltið er þvert á námshópa vinna kennarar saman að lausn mála. Foreldrar upplýstir um gang mála
 • Starfsmenn skólans eru upplýstir um málið eftir atvikum
 • Haft er samband við forráðamenn þolanda og gerenda
 • Samstarf við heimili nemenda eins og frekast er kostur
 • Ef starfsfólk metur málavöxtu þannig að leita þurfi aðstoðar sérfræðinga (skólasálfræðings, námsráðgjafa, Hvergiland) er það gert. Fundir skulu skráðir.
 • Nemendaverndarráð og skólastjórnendur upplýstir um málavöxtu með samþykki foreldra málsaðila og vinna þeir saman að málinu ásamt umsjónarkennara
 • Stuðningur og eftirfylgd með þolendum og gerendum bæði í skóla og heima
 • Í þungum málum er leitað liðsinnis þjónustumiðstöðvar og skóla- og frístundaráðs í samvinnu við þá sem komið hafa að málinu

Það ber að athuga það að hvert tilvik hefur sín sérkenni og sú aðferð sem notuð er við að brjóta upp einelti og leysa það farsællega á einum stað á ekki við á öðrum stað. Hafa skal  í huga aðgát um leið og unnið er markvisst  af elsku og virðingu.

Eineltisvarnaráætlun

Ef grunur leikur á um að einelti eigi sér stað, er mikilvægt að tilkynnt sé um það strax.  Undir Eyðublöð á heimasíðu Dalskóla er að finna "Tillkynningablað um grun um einelti".

Aðgerðir Dalskóla gegn einelti taka til skólans í heild, einstakra bekkjardeilda, námshópa og einstaklinga. Hver kennari ber ábyrgð á að framfylgja með virkum og ábyrgum hætti aðgerðaáætlun skólans gegn einelti og skólastjóri ber ábyrgð á að starfið sé samhæft.

Í Dalskóla munu nemendur og starfsfólk á engan hátt sætta sig við einelti. Forvarnir í eineltismálum eru að:

 • Nemendur eru upplýstir um hvað einelti er og hvert þeir eigi að snúa sér ef þeir halda að þeir verði vitni að einelti í einhverri mynd
 • Í lífsleikninámi er fjallað um samskipti, líðan og einelti
 • Almenn umræða meðal starfsfólks um einelti og mikilvægi þess að skólinn sé staður þar sem allir geta verið öruggir og lausir við vanvirðu og einelti
 • Nemendur eru hvattir til þess að ræða við starfsfólk í trúnaði um líðan sína og ef þá grunar að öðrum líði illa
 • Nemendur fá formleg námsviðtöl við umsjónarkennara tvisvar á ári og þar er líðan einnig rædd
 • Starfsmenn skólans fræðast reglulega um einelti og starfsmenn skólans ræða opinskátt um skólabraginn og hvernig samkennd og vellíðan birtist jafnt hjá starfsmönnum sem börnum.

Foreldrar eru hvattir til að hafa samband við umsjónarkennara umsvifalaust ef ber á vanlíðan hjá nemanda.

Samkvæmt ákvörðun borgarstjórnar síðan 3. nóvember 2009 er mælst til þess að 15. október hvert ár verði haldinn eineltisdagur í skólum Reykjavíkur. Dalskóli mun fjalla um einelti með formlegum hætti þennan dag. Skólastjóri opnar daginn á sal og svo fer fram vinna í hópum. Sérstök áhersla verður lögð á að eldri börn fjalli um mikilvægi góðra samskipta við yngri börn og jafningjafræðsla eigi sér stað.

Fagráð um einelti

Mennta- og menningarráðuneytið gaf út í október 2011 reglugerð nr. 1040/2011 um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum. Hún tekur til réttinda og skyldna aðila skólasamfélagsins í allri starfsemi á vegum skóla, skólabrags, samskipta í skóla, skólareglna og málmeðferðar vegna brota á þeim. Að auki tekur hún til ábyrgðar nemenda með hliðsjón af aldri þeirra, þroska og aðstæðum. Í 7.gr. er fjallað um starf grunnskóla gegn einelti. Þar er kveðið á um að foreldrar og skólar geta óskað eftir aðstoð sérstaks fagráðs, sem starfar á ábyrgð mennta- og menningarmálaráðuneytis, ef ekki tekst að finna viðunandi lausn innan skóla eða sveitarfélags þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir og aðkomu sérfræðiþjónustu.

Prenta | Netfang