Heilsugæsla

Heilsugæsla

Heilsugæslan í Árbæjarhverfi sinnir heilsugæslu í Dalskóla.

Hjúkrunarfræðingar á heilsugæslu Árbæjar sjá um skoðanir og afmarkaða fræðslu í Dalskóla.

Hjúkrunarfræðingur skólans heitir Sunna Brá Stefánsdóttir og það er hægt að senda henni póst á netfangið This e-mail address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Sunna er við á þriðju- og miðvikudagsmorgnum og sinnir börnum á grunnskólaaldri.

Heilsuvernd barna á leikskólaaldri fer fram á Heilsugæslustöðinni en með leyfi foreldra fer fram upplýsingagjöf á milli skóla og heilsugæslu.

Ef alvarleg tilvik koma upp er bent á að hafa samband við heilsugæslustöðina. Einnig er bent á vaktþjónustu hjúkrunarfræðinga á heilsugæslustöðinni. Hafa má samband við vakthjúkrunarfræðing ef einhverjar spurningar eru um skólaheilsugæsluna og kemur hún skilaboðum áleiðis til skólahjúkrunarfræðings ef með þarf.

Meginmarkmið skólaheilsugæslu er að stuðla að því að börn fái að vaxa, þroskast og stunda nám sitt við bestu andlegu, líkamlegu og félagslegu skilyrði sem völ er á.

Heilsugæsla skólabarna er framhald af ung- og smábarnavernd. Skólaheilsugæslan leitast við að efla heilbrigði nemenda og stuðla að vellíðan þeirra. Starfsfólk skólaheilsugæslu vinnur í náinni samvinnu við foreldra/forráðamenn, skólastjórnendur, kennara og aðra sem koma að málefnum nemenda.

Farið er með allar upplýsingar sem trúnaðarmál.

Reglubundnar skoðanir og bólusetningar:

1. bekkur Sjónpróf, heyrnapróf, hæðarmæling og þyngdarmæling

4. bekkur Sjónpróf, hæðarmæling og þyngdarmæling.

7. bekkur Sjónpróf, hæðarmæling, þyngdarmæling og athugun á litskyni.

Bólusett gegn mislingum, rauðum hundum og hettusótt (ein sprauta).

Bólusett gegn mænusótt, barnaveiki og stífkrampa (tvær sprautur).

Nemendur í öðrum árgöngum eru skoðaðir ef ástæða þykir til.

Skólaheilsugæslan fylgist einnig með því að börn hafi fengið þær bólusetningar sem tilmæli Landlæknisembættisins segja til um. Ef börn hafa ekki fengið fullnægjandi bólusetningar verður haft samband við foreldra áður en úr því er bætt.

Skólaheilsugæslan sinnir skipulagðri heilbrigðisfræðslu og hvetur til heilbrigðra lífshátta. Öll tækifæri sem gefast eru nýtt til að fræða nemendur og vekja þá til umhugsunar og ábyrgðar á eigin heilbrigði. Foreldrar geta leitað eftir ráðgjöf skólaheilsugæslunnar varðandi vellíðan, andlegt, líkamlegt og félagslegt heilbrigði barnsins.

 

Lyfjagjafir

Samkvæmt fyrirmælum Landlæknisembættisins eru sérstakar vinnureglur varðandi lyfjagjafir til nemenda á skólatíma. Þar kemur m. a. fram að skólabörn skuli ekki fá önnur lyf í skólanum en þau sem hafa verið ávísuð af lækni. Í engum tilvikum getur barn borið ábyrgð á lyfjatökunni, ábyrgðin er foreldra. Börn skulu ekki hafa nein lyf undir höndum í skólanum nema í algjörum undantekningartilvikum. Slíkar lyfjagjafir geta t.d. verið insúlíngjafir sem barnið sér sjálft alfarið um. Foreldrar/forráðamenn þeirra barna sem þurfa að taka lyf á skólatíma skulu hafa samband við skólahjúkrunarfræðing sem skipuleggur lyfjagjafir á skólatíma.

 

Lús

Lúsin skýtur upp kollinum nokkuð reglulega yfir skólaárið í reykvískum skólum og einnig í Dalskóla. Mjög mikilvægt er að ALLIR foreldrar fylgi leiðbeiningum skólans og heilsugæslunnar þegar þess er óskað. Mikilvægt er að foreldrar venji sig á að kemba hár barna sinna reglulega yfir veturinn hvort sem grunur sé uppi um lúsasmit eða ekki.

 

Prenta | Netfang