Jafnréttisáætlun - mannréttindastefna

 

1          Jafnréttisáætlun - mannréttindastefna

Grundvöllur mannréttindastefnu Dalskóla er mannréttindastefna Reykjavíkurborgar sem samþykkt var í borgarstjórn 16. maí 2006 og endurskoðuð og samþykkt í borgarstjórn 7. maí 2013 og Lög um jafnan rétt og stöðu kvenna og karla nr. 10/2008. Einnig er byggt á rauðum þráðum aðalnámskrár grunnskóla um lýðræði og mannréttindi annars vegar og jafnræði hinsvegar og leiðbeiningum um gerð jafnréttisáætlunar.

 

Þróun skólastarfs í átt til jafnréttis, lýðræðis og mannréttinda felst fyrst og fremst í mótun viðhorfa og menningar. Skapa þarf umhverfi samræðu, þekkingarleitar og þróunarstarfs. Skólinn er lærdómssamfélag og leggur mikla áherslu á valdeflingu starfsmanna og lýðræðisleg vinnubrögð.

Orðið jafnrétti tengist því að allir sitji við sama borð óháð kynferði, kynþætti, trú, kynhneigð eða líkamlegri eða andlegri fötlun. Allt skólastarf í Dalskóla á að vera í anda jafnréttis. Jafnrétti á að vera samofið leik og starfi nemenda og starfsfólks.

Í jafnréttisáætlun Dalskóla er fyrst og fremst verið að vinna með jafnrétti kynjanna og mannréttindi nemenda og starfsmanna. Jafnréttisáætlun er mikilvægt verkfæri sem á að nota markvisst til að fylgjast með jafnri stöðu kynjanna innan skólans, bæði meðal starfsmanna og nemenda.

Í kaflanum um hornsteina skólans segir þetta um hornsteininn lýðræði og félagslega virkni barna: Í Dalskóla er lögð áhersla á lýðræði og virkni nemenda. Þetta er gert með því að nýta samræðuformið, samvinnuaðferðir og skapandi kennsluaðferðir……. Á öllum aldursstigum hafa nemendur ýmislegt val um nám sitt og leik. Nemendur á grunnskólaaldri hafa með hækkandi aldri alltaf aukið val um ýmsa framsetningu á námsskilum. Nemendur sitja í skólaráði og eiga þar rödd. Í undirbúningi skólaráðsfundanna vinna þeir einstök hópvinnuverkefni með námshópnum sínum. Börnin eiga fulltrúa í grænfána- og umhverfisnefndinni og lögð er áhersla á að rödd þeirra hljómi. Nemendur funda reglulega með frístundakennurum og skipuleggja starfið með þeim. Í frístund er unnið með barnasáttmálann og barnalýðræði. Í Dalskóla er lögð áhersla á samverustundir á leikskóladeildum þar sem börnin fá þjálfun í lýðræði, virkri hlustun og að þau eru vakin til meðvitundar um margt er varðar jafnrétti og mannréttindi.

Með því að leggja áherslu á aldursblandaða hópa og teymisvinnu kennara, þá þjálfast allir í félagsfærni og að leggja sitt framlag til skólamenningarinnar.

Skólinn hefur fengið fyrirlesara til þess að ræða jafnréttismál og hin kynjuðu gleraugu sem allir þurfa að hafa, einnig hafa ýmsir úr fötlunargeiranum komið til fyrirlestrarhalds og jafn- og mannréttindi hafa verið tekin fyrir í tveimur smiðjum yfir sex vikna tímabil; annars vegar smiðju um lýðræði og sjálfbærni og hins vegar smiðju um jákvæðan aga og vinskap.

Jafnréttis og mannréttindaáætlun er byggð upp í fjórum liðum:

 1. Almenn markmiðasetning sem tekur til skólasamfélagsins, starfsmanna, barna og foreldra.
 2. Hver er staðan í starfsmannahópi Dalskóla með tilliti til kynja, aldurs og þjóðernis og hverjir eru styrkleikar og veikleikar þeirrar stöðu.
 3. Umbótaáætlun byggð á greiningu sem tekur til starfsmanna, foreldra og barna.
 4. Áætlun um reglulegt mat á framkvæmd jafnréttis- og mannréttindaáætlunar.

 

1.1        Markmiðasetning

Hér fara á eftir almennar markmiðasetningar sem tengjast sýn skólans og ýmsum verkefnum sem stuðla að jafnræði og jafnrétti.

Markmiðasetning er tekur tillit til alls skólasamfélagsins.

 • Jafnréttissjónarmið á að einkenna allt starf Dalskóla og eiga samskipti allra aðila skólasamfélagsins að einkennast af jákvæðum samskiptum og gagnkvæmri virðingu.
 • Menningin á að einkennast af fordómaleysi í garð allra hópa samfélagsins.
 • Allt starf skal hafa jafna stöðu kynjanna að leiðarljósi.
 • Allt skólastarfið skal stuðla að því að nemendur og starfsmenn með einhverskonar fötlun geti verið virkir þátttakendur í skólasamfélaginu til jafns við aðra.
 • Kynferðisleg áreitni og einelti er ekki liðið í Dalskóla. Unnið skal að því að aðgerðaráætlun Reykjavíkurborgar sé fylgt og að allt skólasamfélagið sé meðvitað um þær leiðir sem færar eru til forvarna og aðgerða gegn kynferðislegri áreitni og einelti.

Markmiðasetning er tekur tillit til starfsmanna:

 • Launajafnrétti, ráðningar, endurmenntun, jafnrétti og viðbrögð við starfsbrotum skal ástunda eins fyrir bæði kyn, allan aldur og öll þjóðerni
 • Í skólanum er leitast við að þar starfi hönd í hönd bæði karlar og konur.
 • Að hluti af símenntun starfsmanna varði jafnrétti, lýðræði og mannréttindi.
 • Allir starfsmenn skólans, óháð kyni, eiga rétt á að samræma starfskyldur við hagi fjölskyldu sinnar og einkalífs.
 • Að leiðbeiningar Reykjavíkurborgar um viðbrögð við kynferðislegri áreitni verði fylgt og allir starfsmenn séu meðvitaðir um ábyrgð og færar leiðir ef upp koma atvik sem varða kynferðislega áreitni og/eða einelti.

Markmiðasetning er tekur tillit til uppfræðslu og menntunar barna

 • Nemendum og börnum skal veita hvatningu til að rækta hæfileika sína og persónuþroska án hamlandi áhrifa      hefðbundinna kynjaímynda.
 • Styrkja skal jákvæða kynímynd stúlkna og pilta og vinna gegn neikvæðum samfélagsáreitum (klámvæðing,      auglýsingar, ofbeldi og firringu).
 • Fræðsla um jafnrétti skal vera hluti af skólastarfinu.
 • Námsefni má ekki mismuna eftir kynjum eða uppruna. Mannréttindi allra hópa skal haft að leiðarljósi.
 • Námsefni á að auka víðsýni og umburðarlyndi nemenda og taka mið af því fjölbreytta samfélagi sem við      búum í.
 • Samræða og fræðsla skal eiga sér stað um staðalmyndir.
 • Skal í náms- og starfsfræðslu lögð áhersla á að kynna báðum kynjum öll störf.
 • Á námsefni að kynna aðstæður fólks með ýmiskonar fatlanir.
 • Vinna skal með fordóma sem snerta kyn, aldur, búsetu, stétt, stöðu og rækta með börnum jafngildis      hugtakið.
 • Fræðsla um kynþroska, kynlíf og siðferði í samskiptum kynjanna verður samkvæmt markmiðum aðalnámskrár.

Markmiðasetning er tekur tillit til foreldra

 • Starfsmenn skóla skiptast á að hafa samband við móður og föður ef haft er samband heim
 • Leitast er við að hafa bæði karlar og konur í skólaráði og öðrum foreldrahópum
 • Leitast við að hafa foreldra með ólíkan bakgrunn í stjórnum og ráðum
 • Tryggja að upplýsingar berist öllum, sérstaklega þeim sem hafa íslensku ekki sem móðurmál. Í námsviðtölum eru túlkar þar sem þörfin er
 • Í aðlögun barna á leikskólaaldri skal styðja báða foreldra til þátttöku.

 

1.2        Hver er staðan í Dalskóla vorið 2014?

1.2.1          Starfsmenn

Í Dalskóla starfa 55 starfsmenn þar af 8 karlmenn og 47 konur. Skólinn hefur alltaf tekið mið af kynjum í ráðningum með þessum árangri og betur má ef duga skal.

Laun starfsmanna raðast eftir opinberum samningum og geta starfsmenn ekki samið um laun. Hefð hefur verið fyrir því í Reykjavíkurborg að ákveðin störf hafa óunna yfirvinnu. Þetta eru í Dalskóla matreiðslumeistarinn og umsjónarmaður fasteigna. Í Dalskóla eru þetta í báðum tilvikum karlmenn. Unnið er að því á vegum borgarinnar að koma óunnum yfirvinnulaunum inn í grunnlaun. Greining borgarinnar á hvernig óunnin yfirvinna dreifist sýndi að karlmenn njóta þessara greiðslna frekar en konur.

Í Dalskóla eru tveir karlmenn við kennslustörf, þrír við stuðnings- og frístundastörf, einn við skólastjórnun, einn við matseld og einn við húsvörslu.

Ekkert er það í skipulagi skólans sem mismunar konum og körlum í kennslustörfum.

Í Dalskóla starfa karlmenn við frístunda- og umönnunarstörf.

Ekkert er það í skipulagi skólans sem mismunar konum og körlum í umönnunar- og frístundastörfum.

Gæsla í frímínútum raðast jafnt milli kynja.

1.2.2          Námshópar

Í Dalskóla er „kynjaskekkja“ í nokkrum námshópum á grunnskólaaldri. Þetta kallaðist hér áður fyrr stelpubekkur og svo erum við með tvo strákabekki. Í þessum bekkjum hallar verulega á annað kynið. Dalskóli mætir þessu með því að umsjónarkennarar í samliggjandi kennslustofum (alls staðar er opið á milli) vinna í hringekjum þannig að vinatengsl nái að ræktast bæði við eigið kyn og hið gagnstæða. Jafnframt er unnið í aldursblönduðum smiðjum í 240 mínútur á viku. Á leikskóladeildum eru vel kynjablandaðar deildar og börnin fá þar að auki að taka þátt í margskonar hópastarfi og flæði þar sem þeim er ýmist raðað í hópa eða þau velja sér starfsstöðvar.

1.2.3          Starfsmenn með annað móðurmál

Í Dalskóla starfa fjórir aðilar af erlendum uppruna. Tveir þeirra eru við kennslustörf, einn við framreiðslustörf og einn í skólaliðastarfi. Þetta eru allt konur og allar frá austur Evrópu. Þrjár þeirra tala mjög góða íslensku og hafa samlagast íslensku samfélagi mjög vel. Skólinn hefur lagt mikla áherslu á íslenskunám starfsmanna sinna. Í starfsmannasamtölum er leitast við að hafa túlk.

1.2.4          Nemendur með annað móðurmál en íslensku

Í skólanum eru börn bæði á leikskóla- og grunnskólaaldri af erlendum uppruna. Mikil áhersla er lögð á góð foreldrasamskipti og í námsviðtölum eru túlkar þar sem þess er þörf. Jafnframt eru stofnuð teymi utan um börnin ef ástæða þykir til og eru þá mánaðarlegir fundir. Góð markviss aðlögun barnanna að skólalífi og foreldra þeirra ekki síður er litin sem mjög mikilvægur þáttur í velferð barnanna. Dalskóli getur gert betur á þessu sviði með því að tengja betur foreldra þessara barna að foreldrastarfinu og fá foreldrafélagið og bekkjarfulltrúa til að vinna markvisst í þessa átt.

1.2.5          Aldur

Í Dalskóla eru starfsmenn frá tuttugu og eins árs aldri til og með 66 ára aldri. Meðalaldur starfsmanna skólans er 37,8 ár. Dreifing í aldri er nokkuð jöfn. Skólinn er ungur í ungu hverfi í örum vexti. Í mannaráðningum er fyrst og fremst tekið tillit til þeirrar hæfni og menntunar sem óskað er eftir í auglýsingum auk þess sem tekið er tillit til kynja.  

1.2.6          Fötlun

Í Dalskóla starfar ekki enn sem komið er fatlaður einstaklingur. Skólinn hefur hins vegar unnið með borginni í atvinnutengdum verkefnum.

 Allt starfsfólk Dalskóla ber ábyrgð á að vinna eftir jafnréttis- og mannréttindastefnu Dalskóla og Reykjavíkurborgar. Skólastjóri ber ábyrgð á að kynna stefnuna fyrir starfsfólki og fylgja því eftir að unnið sé samkvæmt henni. Einnig ber skólastjóri ábyrgð á að finna viðunandi lausn á þeim mannréttindamálum sem upp kunna að koma.

 1.2.6.          Áreitni, ofbeldi og einelti

Í Dalskóla vinna kennarar og starfsmenn í teymum. Opið er á milli kennslustofa, einnig í listgreinum. Þetta þjónar fyrst og fremst námi og kennslu en er líka mjög mikilvægt til verndunar börnum og kennurum gegn ljótum talsmáta, ógnun og hvers konar valdaójafnvægi. Ef upp kemur grunur eða vísbending um miður góða framkomu kennara gagnvart nemenda er hikstalaust boðað til fundar með foreldrum og skólastjórnendum ásamt kennara. Við leysum ágreiningsmál í anda jákvæðs aga og förum inn í öll mál eftir skilgreindum ferli. Eineltisáætlun skólans má finna á heimasíðu skólans.

Ef upp kemur grunur um kynferðislega áreitni eða kynferðislegt ofbeldi fullorðins einstaklings gagnvart barni fer hinn fullorðni í leyfi á meðan rannsókn fer fram. Ef um fullorðna einstaklinga er að ræða fer það eftir málsatvikum hvort meintur gerandi fer í leyfi á meðan rannsókn fer fram. Dalskóli vinnur eftir viðbragðsferli Reykjavíkurborgar. Starfsfólki er gert ljóst hvernig brugðist er við áreitni og einelti. Starfsfólk hefur aðgang að bæklingi Reykjavíkurborgar um einelti og áreitni á vinnustað. Öll skref í þessum viðkvæma málaflokki eru borin jafnóðum undir mannauðsstjóra borgarinnar. Ef skólastjórnandi er beinn aðili að málinu skal hann víkja á meðan rannsókn fer fram.

 

1.3        Umbætur og þróun jafnréttis- og mannréttindaáætlunar

Skólinn tók upp síðastliðið haust uppeldisstefnu sem heitir Jákvæður agi. Sú stefna var valin því hún samræmist stefnu skólans um ákveðin viðhorf til almenns uppeldis og til einstaklingsins. Jákvæður agi gengur út frá þeirri grunnþörf manneskjunnar að vilja tilheyra og að mörg hegðun og hugsun mótast og þróast af þeirri viðleitni barna og fullorðinna. Stefnan gengur út á samræðu barna á svokölluðum barnafundum eða bekkjarfundum sem haldnir eru tvisvar til þrisvar í viku. Svo í starf Dalskóla er samræða og lýðræðisformið samofið skóladeginum. Frístundastarfsmenn hafa markvisst unnið með barnasáttmálann og lýðræði.

Á næstu tveimur árum mun skólinn festa í sessi og vinna með:

 • Jákvæður agi verði virkur hluti skólamenningar Dalskóla og nemendur, foreldrar og starfsmenn þekki tæki og leiðir stefnunnar.
 • Að halda kynningarfund og eiga samræðu um jafnréttis- og mannréttindaáætlun skólans.
 • Leitast við að ráða fleiri karlmenn til starfa.
 • Taka upp vinnumið um að hringja til skiptis til móður og föður og senda alltaf tölvupóst til þeirra beggja eða til forsjáraðilanna.
 • Eiga samtal við foreldrafélag og skólaráð um mikilvægi samábyrgðar á velferð fjölskyldna af erlendum uppruna.
 • Að halda áfram að þróa viðhorf virðingar fyrir einstaklingnum og sérkennum hans.

 

1.4        Mat á stefnunni

Í Dalskóla eru árlega gerðar foreldrakannanir og haldnir eru matsfundir með öllum starfsmönnum. Auk þess eru metin viðhorf barna til skólans og starfsins. Inn í foreldrakannanir mun skólinn setja spurningar hvað varðar framkvæmd stefnunnar. Á barnafundum munu verða bornar upp spurningar sem leitast við að kanna viðhorf til jafnréttis og mannréttinda. Matsfundur starfsmanna er valdeflandi tæki því í Dalskóla er menning þess að ræða opinskátt um það sem vel er gert og það sem betur má fara. Hver starfsmaður fer þar með framsögu. Þetta tæki er aðaltæki stjórnenda til þróunar skólans. Í starfsmannaviðtölum skólans hefur verið og verður leitast við áfram að eiga samtal um siðferðileg mál og viðhorf til nemenda, foreldra og minnihlutahópa.

 

Markmið

Aðgerð

Ábyrgð

Tímarammi

Jákvæður agi verði virkur hluti skólamenningar   Dalskóla og nemendur, foreldrar og starfsmenn þekki tæki og leiðir stefnunnar

Greining á því hvort starfsmenn fylgi stefnunni. Það   gert með viðtölum og könnunum í febrúar ár hvert

Skólastjórar

Lokið í febrúar og greining á gögnum í mars

Að í 95% tilvika sé hringt til skiptis í   forsjáraðila

Rætt á starfsmannafundum

Skólastjórar

Fundir fara fram í október og apríl

Kynning stefnunnar

Á skólakynningum í september

Skólastjórar

September og þekking á stefnunni könnuð í   foreldrakönnun í feb. - apríl

         
   

Laus störf hjá     fyrirtækinu skulu standa opin bæði konum og körlum og leitast verður við að     jafna kynjahlutfallið í skólanum

   

Samantekt á   kynjahlutföllum í öllum starfshópum ásamt yfirliti yfir auglýst störf,   umsækjendur og ráðningar.

Skólastjórar

Lokið í júní ár hvert

Að einu sinni á ári verði endurmenntunarfundur sem   ræðir jafnréttismál og forvarnarmál vegna eineltis og kynbundins ofbeldis.

Jafningjafræðsla eða aðfengnir fræðingar

Skólastjórar

Á skólaárinu

Eiga samtal við foreldrafélag og skólaráð til að   sinna félagsmálum barna af erlendum uppruna

Á haustfundum er málið rætt og á vorfundum árangur   metinn

Skólastjórar og foreldrafélag

maí

 

 

 

Prenta | Netfang