Dalskóli veturinn 2017-2018

Almennt

Listmeðferð er sjálfstætt meðferðarform og byggir á sálfræðikenningum og kenningum um listsköpun. Í listmeðferð er barninu boðið að tjá tilfinningar sínar og hugarheim í gegnum myndlist og leik í öruggu umhverfi og undir umsjón listmeðferðarfræðings.

 Í listmeðferð er áherslan á hvernig barnið upplifir sjálft sig, þarfir sínar og eigin vanda. Sú myndræna nálgun sem notuð er veitir oft aðgang að djúpliggjandi þáttum í tilfinningalífi barnsins sem talað mál megnar oft ekki að gera. Myndsköpunarferlið og sambandið við listmeðferðarfræðinginn getur hjálpað barninu að tjá ýmsar tilfinningar og hugsanir sem það áður gat ekki komið orðum að og þannig öðlast barnið nýjan skilning á sjálfu sér. 

Í listmeðferð er það myndsköpunarferlið sem skiptir máli en ekki hvort barnið býr til ,,fallega” eða ,,ljóta” mynd. Í vinnuferlinu er ekkert rétt eða rangt, þess vegna þarf sá sem kemur í listmeðferð hvorki að ,,kunna” að teikna eða fara með efni og áhöld. Hinsvegar skiptir máli hvaða merkingu barnið leggur í myndverk sitt og listmeðferðarfræðingurinn hjálpar barninu að skoða hug sinn þar að lútandi. Þessar aðstæður geta örvað sköpunargáfu barnsins, sjálfstraust og virðingu fyrir eigin hæfileikum og getu. Það getur auðveldað barninu frekari skilning á sjálfu sér og þannig styrkt sjálfsmynd þess. 

Listmeðferð í skólum er byggð á annarri grein laga um grunnskóla þar sem segir að: 

,,Grunnskólinn skal leitast við að að haga störfum sínum í sem fyllstu samræmi við eðli og þarfir nemenda og stuðla að alhliða þroska, heilbrigði og menntun hvers og eins.” 

Núgildandi grunnskólalög kveða á um að öll börn eigi rétt á námi í sínum heimaskóla. Mikilvægt er að komið sé til móts við ólíkar þarfir nemenda. Þessar aðstæður kalla á það að fleiri fagaðilar starfi ásamt kennurum innan skólanna. Listmeðferðarfræðingur innan stoðkerfis skólans brúar þann þátt er snýr að meðferð barna með tilfinningalega og félagslega erfiðleika og er í samvinnu við aðra sérfræðinga skólans.

 Samkvæmt fjölgreindarkenningu Howards Gardner er mikilvægt að komið sé til móts við mismunandi greindir barnsins. Í þeim tilfellum þar sem barnið á við tilfinninga- og/eða félagslega erfiðleika að stríða, er markmið listmeðferðarinnar að styrkja sjálfsgreind og félagsgreind barnsins. Tilfinningarlegur og félagslegur þroski er mikilvægur fyrir barnið til að skapa með sér heilsteypta og jákvæða sjálfsmynd.

 Meginmarkmið listmeðferðar í skólum felst í því: 
-að hjálpa barninu til að laða fram eigin sköpunargleði. 
-að þróa persónulega tjáningu og koma sterkum tilfinningum frá sér á uppbyggjandi hátt. 
-að læra að þekkja tilfinningar sínar og viðbrögð. 
-að auðvelda tengingu tilfinninga og hugsana. 
-að styrkja frumkvæði, hugmyndaflug og sjálfstæði. 
-að gefa barninu tækifæri til að þróa og þroska jákvæða sjálfsímynd og innra öryggi. 

Það er grundvallarmunur á listmeðferð og myndlistarkennslu
Starf myndlistarkennarans miðast við það sem lagt er fyrir í námskrá. Hann kennir formræna/hlutlæga og fagurfræðilega uppbyggingu myndmálsins, um myndlistarefnin, tækniaðferðir, notkun áhalda og efna, strauma og stefnur í listasögu, listgagnrýni og undirbýr nemendur sem listnjótendur. 

Listmeðferðarfræðingurinn leggur hins vegar meira upp úr vinnuferlinu sjálfu og sambandi sínu við barnið. Hann veitir athygli tilfinningalegum viðbrögðum, hegðun, vinnulagi, hvernig barnið upplifir verk sitt, innihaldi myndverksins og hvað barnið hefur um myndverkið að segja. Listmeðferðarfræðingurinn skoðar persónuleg einkenni og þroskaþætti sem birtast í myndverkinu og hjálpar barninu að vinna með þær tilfinningar sem koma upp á yfirborðið. 

Tilvísanir

Foreldrar og/eða starfsfólk skólans fylla út tilvísunareyðublað sem finna má á heimasíðu Dalskóla www.dalskoli.is undir eyðublöð þar sem helstu upplýsingar um barnið koma fram. Listmeðferðarfræðingurinn metur hverja tilvísun fyrir sig í samráði við skólastjórnendur og viðeigandi starfsfólk skólans.

Foreldrum verður boðið á fund með listmeðferðarfræðingnum þar sem þeir eru beðnir um að gefa samþykki sitt fyrir listmeðferð og samþykki á meðferð gagna.

Ástæður tilvísana geta verið ýmsar og margþættar, t.d. vegna barna sem eru undir einhverskonar álagi, svo sem vegna breytinga á fjölskyldumynstri, veikinda, missis eða eineltis. Einnig getur legið fyrir greining eða grunur um einhverskonar röskun.

Trúnaður

 Trúnaður gildir milli listmeðferðarfræðings og þess einstaklings sem hann vinnur með. Sem starfsmaður Sjálandsskóla vinnur listmeðferðarfræðingur í nánu samstarfi við annað starfsfólk skólans. Ef upp koma aðstæður þar sem listmeðferðarfræðingur óttast um öryggi barnsins eða annarra einstaklinga ber honum að tilkynna það til skólastjórnenda og viðeigandi yfirvalda. Barninu er í öllum tilvikum gert ljóst að málið verði rætt og við hverja það verði rætt.

Listmeðferðarfræðingur ræðir ekki málefni barnsins við neina utanaðkomandi án samþykkis barnsins og foreldra.

Skipulag listmeðferðar

Listmeðferðarfræðingur er með viðveru í Dalskóla á föstudögum. Boðið verður upp á einstaklingsmeðferð, 40 mínútur á viku. Lengd meðferðar fer eftir eðli hvers máls fyrir sig og verður ákveðið í samráði við skólastjórnendur og foreldra.

Skipulag listmeðferðar ákvarðast af þeim ramma sem skólatíminn gefur. Boðið er upp á listmeðferð þann tíma sem skólastarf er, frá ágúst fram í júní. Skipulagið er aðlagað stundatöflu einstaklingsins í samráði við umsjónarkennara.

Meðferðin fer fram á sama tíma í hverri viku, í sama herberginu og er það gert til að auðvelda barninu að byggja upp traust samband milli sín og listmeðferðarfræðingsins. Börn eru mislengi að byggja upp traust og fer það eftir þeim erfiðleikum og viðfangsefnum sem barnið er að glíma við. Listmeðferðarfræðingurinn finnur þær leiðir sem henta barninu til skapandi tjáningar í gegnum ólíkan myndlistarefnivið eða leik. Þessi vinna getur bæði verið í formi sjálfssprottinnar myndsköpunar eða beinnar stýringar á viðfangsefni og efnivið. 

Listmeðferðarfræðingur starfar samkvæmt starfslýsingu og siðareglum Félags listmeðferðarfræðinga á Íslandi. 

Listmeðferðarfræðingur þiggur handleiðslu fagaðila og ræðir þar mál barnsins án þess að gefa upp nokkrar persónuupplýsingar. Foreldrar eru beðnir um að gefa samþykki sitt fyrir því með undirritun þar til gerðs eyðublaðs á kynningarfundi.

Mat og niðurstöður

Í upphafi meðferðar metur listmeðferðarfræðingurinn barnið út frá samskiptum, hegðun, vinnulagi og meðferð myndlistarefna og býr til meðferðaráætlun. Að loknum 6 vikum ræðir listmeðferðarfræðingur við barnið um framgang meðferðar og skoðar með barninu þau myndverk sem unnin hafa verið á tímabilinu. Listmeðferðarfræðingur vinnur skýrslu þar sem fram kemur mat hans á framgangi meðferðar, notkun á efnivið, tillögur að framhaldi og yfirlit yfir samskipti listmeðferðarfræðings við starfsfólk skólans og aðra fagaðila sem að málinu koma.

Í lok meðferðarinnar er unnin skýrsla þar sem lagt er mat á framgang meðferðarinnar. Þar er dregin fram ástæða tilvísunar, tilvísunaraðilar, viðfangsefni og niðurstöður meðferðarinnar sem og tillögur að framhaldi meðferðar ef einhverjar eru.

Allar skýrslur sem skrifaðar eru af listmeðferðarfræðingi eru merktar TRÚNAÐARMÁL og geymdar í persónumöppu barnsins til að tryggja persónuvernd. Skólayfirvöld, umsjónarkennari og foreldrar/forráðamenn hafa aðgang að skýrslum barnsins.

Listmeðferðarfræðingur ásamt umsjónarkennara, foreldrum og öðrum sem að máli barnsins koma funda reglulega saman um stöðu barnsins og líðan. Miðast við að slíkir fundir séu á 6-8 vikna fresti á meðan á meðferð stendur.

 Listmeðferðarfræðingur skólans er Katrín Erna Gunnarsdóttir. Hún útskrifaðist með MSc gráðu í listmeðferð árið 2017 frá Queen Margaret University í Edinborg í Skotlandi. Áður hefur hún lokið BA prófi við Háskóla Íslands í Listfræði árið 2008 og BA prófi í Myndlist við Listaháskóla Íslands árið 2012.

Prenta | Netfang