Um skólann

Grunnhugmynd um um starfið í skólanum er að þar líði öllum vel, að börnin fái að dafna, nema og blómstra. Í skólanum er lögð rækt við sjálfstæð vinnubrögð, frumkvæði og skapandi starf. Dalskóli er án aðgreiningar og öll börn þangað velkomin óháð andlegu og líkamlegu atgervi, menningu og trú.

Dalskóli hóf starfsemi haustið 2010 og var vígður þann 2. október. Hann stendur við Úlfarsbraut 118-120 í Úlfarsárdal.  Skólinn byrjaði undir einu þaki og með einn skólastjóra sem ber ábyrgð á starfi leikskóla-, grunnskóla- og frístundastarfi. Fyrsta haustið voru nemendur 51 á leikskólaaldri og 32 á grunnskólaaldri.  Skólinn er í nýjasta hverfi Reykjavíkur sem er í uppbyggingu og nýjar skólabyggingar voru hannaðar skólaárið 2014-2015. Þær byggingar taka mið af niðurstöðum forvinnu starfshóps sem hafði það hlutverk að leggja línurnar um markmið skólans, innra starf hans og útfærslu þeirrar byggingar sem þjóna best skólanum. Breytingar á aðalskipulagi Reykjavíkurborgar hafa orðið þess valdandi að stefnt er að því að  Dalskóli verði með nemendur frá tveggja ára aldri og allt til loka grunnskólans. Haustið 2010 tók skólinn í notkun nýtt húsnæði sem hýsti allt skólastarfið. Það húsnæði verður í framtíðinni nýtt fyrir yngstu Dalskólabörnin.

Við skólann starfa að hausti 2016 65 starfsmenn. Hjúkrunarfræðingur kemur frá Heilsugæslu Árbæjar og sálfræðiþjónustu og sérkennsluráðgjöf fær Dalskóli frá Þjónustumiðstöð Árbæjar og Grafarholts og/eða skóla- og frístundasviði. Við skólann starfar 4 sérkennarar og einn þroskaþjálfi.

 Leiksvæði barnanna er annars vegar á Dalskólalóðinni þar sem hugað hefur verið að þörfum yngri barna við leik og í kringum lausu kennslustofurnar.

Húsnæði skólans

Dalskólabyggingin telur 925 fermetra og er á tveimur hæðum. Í henni eru sex almennar kennslu- og leikstofur sem allar snúa í hásuður og með stórum opnanlegum gluggum og hurðum. Á efri hæð er gengið út á svalir en á þeirri neðri út á hellulagða verönd.  Í byggingunni er eitt minna kennslurými og fjölnota matsalur með fallegu útsýni til austurs. Í Dalskólabyggingunni er gott eldhús og stjórnunarálma og þar er vinnuaðstaða utan kennslunnar fyrir starfsmenn skólans. Dalskóli nýtir jafnframt 23 lausar kennslustofur. Þær eru staðsettar fyrir austan Dalskólabygginguna.  Ellefu þeirra eru fyrir umsjónarhópa, fimm fyrir listgreinar, tvær fyrir frístund, tvær fyrir stjórnun, ein fyrir sérkennslu og tvöföld stofa fyrir matsal.

Ekki er íþróttahús við skólann en nemendur á grunnskólaaldri fara í rútum í Fylkishöll tvisvar í viku, á vorin og haustin eru útiíþróttir á skólalóð eða í nágrenni skólans. Sundkennsla fer fram í Árbæjarlaug. Kennsla nemenda í 1. – 4. bekk fer fram í innilauginni en nemendur í 5.-10. bekk eru í útilauginni.

Börn á leikskólaaldri fara í íþróttir í sal skólans eða utandyra.

Rekstur skólans fellur undir Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar og sækir skólinn þjónustu til Þjónustumiðstöðvar Árbæjar og  Grafarholts.

Öll innritun í leikskólahluta skólans fer fram á Skóla- og frístundasviði og þar er haldið utan um biðlista og innritun auk þess sem þar er veitt ýmis þjónusta til skólans s.s. leikskólaráðgjafar, mannauðsráðgjafar og endurmenntun ýmis konar. Reykjavík er eitt leikskólasvæði og hafa foreldrar val um hvar þeir vilja að barn sitt sæki leikskóla, hverfisskólar hafa ekki forgang þar um.

Innritun grunnskólabarna fer fram í gegn um Rafræna Reykjavík. Í Reykjavík hafa foreldrar frjálst skólaval en börn sem búa í hverfinu hafa forgang. Skólinn getur hafnað grunnskólabarni utan hverfis skólaaðgangi ef bekkjardeildir er of stórar eða aðrar gildar ástæður liggja til grundvallar neitun um skólavist

Hluti námsins fer fram undir berum himni. Dalskóli er skóli á grænni grein og dró Grænfánann að húni vorið 2012. Skólinn stefndi auk þess á að flagga menningarfánanum og var í apríl 2012 valinn fyrsti skólinn í Reykjavík til þess að taka formlega við viðurkenningu um að vera menningarskóli. Skólinn hefur sett sér umhverfisstefnu þar sem lögð er áhersla á að auka þekkingu og virðingu nemenda fyrir umhverfi sínu, skapa jákvætt viðhorf nemenda og starfsmanna til umhverfismála og þroska vitund um lýðræði og að láta sig umheiminn varða. 

Breytt: 29/09 2016

Prenta | Netfang