Hornsteinar skólans

 

Hornsteinar skólans

Hornsteinar skólans eru: læsi og lesskilningur, virkni og félagsleg þátttaka barna, útikennsla, sköpun og listir, tónlist og söngur, gleði og metnaður.

Hornsteinar skólans voru lagðir í anda nýrrar aðalnámskrár sem gefin var út 2011. Þar voru lagðir 6 rauðir þræðir: 1. Sköpun 2. Heilbrigði og velferð 3. Lýðræði og mannréttindi 4. Sjálfbærni 5. Læsi 6.jafnrétti.

Skólinn ákvað að sameina í fyrstu fjóra steinana sína alla sex þræði aðalnámskrár og leggja að auki steina tileinkaða tónlist og söng annars vegar og gleði og metnaði hins vegar.

Leiðir að hornstólpunum

Lögð er áhersla á gæðamikla og jafna vinnu í læsi. Einu sinni á hverju skólaári er unnið með læsi á skapandi og djúpan hátt í smiðjum. Veturinn 2012-2013 voru gerð frumdrög að lestrarstefnu Dalskóla og komu bæði foreldrar og allir starfsmenn að þeirri vinnu.  Var þeirri vinnu framhaldið árið eftir. Lestrarstefnu skólans má finna á heimasíðu skólans.

Læsi og lesskilningur

Hugtakið læsi (literacy) er komið úr latínu og merkir táknsetning með bókstöfum. Merking þess er víðtæk, en  það vísar allt í senn til lesturs, ritunar og lesskilnings. Í Dalskóla er unnið markvisst að undirbúningi lesturs frá upphafi leikskólagöngunnar bæði með formlegri þjálfun og í gegnum leikinn. Það er gert með markvissri málörvun, hljóðgreiningu, notkun táknmynda, orðmynda og bókstafa, þulum, söng, kortavinnu, tjáningu og auðugri notkun tungumálsins. Það að vera læs felst í því að einstaklingar geti nýtt sér lestur, lesskilning og ritun í daglegum viðfangsefnum og árangur byggir mikið á auðugri máltöku og ríkulegri notkun á tungumálinu. Því betri málþroska sem barn hefur, því  betur er það í stakk búið til að takast á við lestrarnám.

Læsi byggir í meginatriðum á  eftirfarandi þáttum:

Lestækni
er færni sem hver einstaklingur þarf að læra og þjálfa og byggir á því að þekkja bókstafina og hljóð þeirra af öryggi til að vera fær um að lesa hratt og fyrirhafnarlaust úr bókstafstáknum ritmálsins.

Lesskilningur er færni sem byggir á orðaforða og málskilningi einstaklingsins. Um er að ræða hæfni til að skilja ólíka texta í mismunandi samhengi, frá mismunandi sjónarhornum, tilgangi og markmiði.

Ritun og stafsetning er færni sem  byggir á öllum þáttum tungumálsins. Að grunni til reynir stafsetning mjög á hljóðkerfisþáttinn, einkum færni við að sundurgreina hljóð orðanna til að vera fær um að kortleggja þau með réttum bókstöfum.

Merkingarsköpun er þegar upplifandinn/lesandinn/áhorfandinn leggur það sem hann er að upplifa og reyna við alla sína fyrri reynslu og upplifunin fær merkingu og ný reynsla eða þekking verður til.

Samskipti er um það hvernig við meðhöndlum efniviðinn, reynsluna, merkinguna eða þekkinguna. Samskipti á ekki aðeins við samskipti fólks heldur einnig um margs konar miðlun og tjáningu.

Í Dalskóla er lestrarerfiðleikum (dyslexiu) mætt með markvissum kennsluháttum í samvinnu við foreldra og lögð áhersla á að grípa strax inn í ef grunur vaknar um lestrar- og máltökuerfiðleika hjá nemenda.

Mikið kapp er lagt á góðan árangur í lestri, lesskilningi og almennri íslenskuþekkingu. Við nýtum fjölbreyttar kennsluaðferðir í lestrarkennslu en auk þess leggjum við áherslu á að þjálfa lesturinn með PALS aðferðinni (Peer Assissted Reading Strategies) eða pör að læra saman.  Á leikskóladeildum eru ýmsar aðferðir málörvunar nýttar, mikið er lesið fyrir börnin og bækur og ritmál er sýnilegt inni á deildum. Stuðst er við aðferðir byrjendalæsis að einhverju leyti. Annars er hver stund á deginum notuð til að hvetja börnin til að tjáningar og hlustunar. Í frístundastarfi er lögð áhersla á gott aðgengi að bókum og bókasafni og til staðar er lestrarkrókur. Reglulega lesa frístundastarfsmenn sögur fyrir börnin.

Útikennsla / umhverfismennt.

Í Dalskóla færum við hluta starfsins út undir bert loft. Það teljum við heilsubætandi, gleðigefandi og fræðandi. Við teljum mikilvægt að börn læri á náttúruna og hrynjanda hennar í bernsku, það eykur næmi, þekkingu og virðingu fyrir öllu lífi. Það mun gerast í samvinnu við Reykjavíkurborg og landeigendur. Dalskóli nýtir sér jafnframt flatirnar niður á bökkum Úlfarsár en þar eru leifar gamalla garða og lágvaxinn gróður myndar þar hlýja umgjörð. Svæðið er gróðursælt en í kring er votlendi. Fuglalíf er nokkurt og vistkerfið iðar af lífi. Skólinn skrifaði í ársbyrjun 2012 undir samning við umhverfis- og samgöngusvið um samstarf og nýtingu grenndarsvæðis í skólastarfi. Markmið samstarfsins er að skapa vettvang fyrir umhverfisfræðslu í næsta nágrenni skólans þar sem unnið verður á grundvelli hugmyndafræði um sjálfbæra þróun hvað varðar nýtingu og umgengni. Starfsfólk Dalskóla hefur notið leiðsagnar Náttúruskóla Reykjavíkur um aðferðafræði og möguleika útináms og er undirritun samningsins staðfesting á því góða starfi sem unnið er utandyra á vegum skólans. Skólinn fékk í samstarfi við foreldrafélagið styrk úr forvarnarsjóði Reykjavíkurborgar til að vinna að uppbyggingu svæðisins. Sérstakt þróunarverkefni er einnig í gangi meðal starfsmanna á leikskóladeildum þar sem á dagsskipulagi er reglulegt útinám utan skólalóðar.

Helstu markmið með útikennslunni og umhverfismennt:

  • að börnin geri sér grein fyrir því að umgengni þeirra og samferðarmanna þurfi að taka mið af því að þau skerði ekki möguleika komandi kynslóða til að mæta þörfum sínum
  • að nýta fjölbreytt umhverfi skólans til að auðga kennsluna og tengja hana samfélagi og náttúru.
  • að nemendur kynnist vel nánasta umhverfi sínu og láti sér annt um það.
  • að efla virðingu nemenda fyrir náttúrunni og umhverfi sínu.
  • að leggja áherslu á útiveru nemenda og stuðla þannig að jákvæðri sjálfsmynd þeirra.  
  • að nemendur nýti mátt sinn og megin í öllum veðrum og stuðla þannig að hreysti og þoli.
  • að nemendur kynnist höfuðborginni og helstu menningarverðmætum hennar.
  • að nýta náttúruna sem námsefni

Dalskóli hefur gert sér vonir um að koma upp traustu gróðurhúsi austanmegin við skólann og í framtíðinni mun það standa miðja vegu milli skólahúsanna eða að tengja þau saman. Fyrirtækið Lambhagi er nágranni okkar og hafa allir nemendur heimsótt Lambhaga og fræðst um lífræna ræktun. Við verðum í samstarfi við þau um að þróa starf á grenndarsvæðinu okkar sunnan við skólann.

Félagsfærni og virk þátttaka barna - (lýðræði og mannréttindi/jafnrétti)

Í Dalskóla er lögð áhersla á lýðræði og virkni nemenda. Þetta er gert með því að nýta samræðuformið, samvinnuaðferðir og skapandi kennsluaðferðir. Börn í Dalskóla koma reglulega fram á sviði og sýna þar afrakstur vinnu sinnar með ýmsum aðferðum. Dalskóli leitar leiða til þess að nemendur á grunnskólaaldri þjálfist í að bera ábyrgð á námi sínu.

Á öllum aldursstigum hafa nemendur ýmislegt val um nám sitt og leik. Nemendur á grunnskólaaldri hafa með hækkandi aldri alltaf aukið val um ýmsa framsetningu á námsskilum. Nemendur sitja í skólaráði og eiga þar rödd. Í undirbúningi skólaráðsfundanna vinna þeir einstök hópvinnuverkefni með námshópnum sínum. Börnin eiga fulltrúa í grænfána- og umhverfisnefndinni og lögð er áhersla á að rödd þeirra hljómi. Nemendur funda reglulega með frístundastarfsmönnum og skipuleggja starfið með þeim. Í frístund er unnið með barnasáttmálann og barnalýðræði. Í Dalskóla er lögð áhersla á samverustundir á leikskóladeildum þar sem börnin fá þjálfun í lýðræði, virkri hlustun og að þau eru vakin til meðvitundar um margt er varðar jafnrétti og mannréttindi.

Með því að leggja áherslu á aldursblandaða hópa og teymisvinnu kennara að þá þjálfast allir í félagsfærni og að leggja sitt framlag til skólamenningarinnar.

Dalskóli leitast við að ráða bæði karlmenn og kvenmenn til allra starfa.

Listir og sköpun

Í skólanum er lögð áhersla á að virkja börn og nemendur til skapandi listrænnar vinnu. Börn á grunnskólaaldri munu fá að lágmarki tvo tónmenntartíma í viku auk daglegs samsöngs. Eldri börnin á leikskólaaldri fá einn tíma á viku sem tónlistarkennari sinnir en þau yngri munu njóta tónlistaruppeldis með kennurum sínum á viðkomandi deild. Hvert barn á grunnskólaaldri fær tvo listgreinatíma á viku að lágmarki. Mikið skapandi starf fer fram inni á deildum leikskólans. Dalskóli notar aðferðir listgreina í þemavinnu en þemavinna er 6 kennslustundir á viku. Allir nemendur á grunnskólaaldri fá heimilisfræði í hálfan vetur tvo - þrjá tíma í senn og helming vetrarins fá allir nemendur textílkennsku. Svo samtals fá börnin 6 tíma í bundna listgreinatíma. Frístundastarf er samofið grunnskólastarfinu og frístundastarfsmenn leggja áherslu á leik, listir, sköpun, útiveru og hreyfingu. Í skólanum mun vera samvinna við listasöfn, tónlistarskóla og LHÍ með það markmið að auka þekkingu og reynslu nemendanna af listastarfi og sköpun. Skólinn er að þróa samstarf við listamenn sem ýmist koma og kenna að hluta til eða koma og halda fyrirlestra. Skólinn hefur verið duglegur við að fá listamenn í samstarf við Dalskóla. Listamenn hafa komið í skólann með reglulegu millibili, bæði til þess að leika listir sínar og fá börnin með í skapandi vinnu. Auk þess eru Dalskólabörn dugleg að fara í ferðir út í bæ til að upplifa söng-, leik- og myndverk frá ýmsum hliðum. Nýsköpunarnámi verður gefið aukið vægi með því að nemendur leiti skapandi lausna á ýmsum fyrirbærum og vandamálum sem menn glíma við dags daglega. Nýsköpunarnám fer fram í tengslum við smíðar.

Dalskóli hefur það á áætlun að gera varanleg listaverk með börnunum á tveggja ára fresti. Fyrst slíkra listaverka er stytta af Vilborgu pólfara og var henni fundinn staður í beði fyrir framan skólann, en er í hvíld fram að vígslu nýja skólans. 

Tónlist og söngur

Á hverjum degi er sungið í skólanum, söngur styrkir, nærir og kætir. Í samsöng eldri barnanna er samlíðan stór þáttur og styrkir það menningu skólans og vitund um að tilheyra samfélagi. Í samsöng er menningararfi miðlað, nemendur læra ógrynni laga, ljóða og texta sem m.a. auka lesskilning og málskilning. Á leikskóadeildum eru söngstundir á hverjum degi þar sem börnin læra lög og vísur. Tónlistariðkun er veigamikill þáttur í starfi skólans og stefnt er að því að nemendur tileinki sér táknmál tónlistar og vinni með frumþætti tónlistar í gegnum söng og rödd, hreyfingu og hljóðfæraleik. Dalskóli á í samstarfi við Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar og Skólahljómsveit Grafarvogs en kennarar frá þessum skólum koma og kenna börnum á þau hljóðfæri sem þau eru að læra á hér í skólanum. Kennurum frá þessum skólum er búin góð aðstaða og samstarfsflötur til þess að sinna tónlistarkennslu.

Gleði og metnaður

Við viljum að öllum líði vel í skólanum og að þar sé glatt á hjalla. Það gerum við með reglulegu uppbroti í skólanum. Á sex vikna fresti við þemalok er sýning í einhverju formi, við höldum 100 daga hátíð fyrir fyrstu bekkinga, við gerum öðruvísi daga,við erum með vinabekki og vinaliða. Við göngum árlega á Úlfarsfell, við höfum hátíðarhópeflisdag í upphafi vetrar, við höldum Úlfaleika og áfram mætti telja.  Við fögnum hvert öðru í upphafi dags, við þjálfum þakklæti og við þjálfum alla í að gera öðrum gott.

 

Prenta | Netfang