Viðhorf í Dalskóla

Í Dalskóla er einstaklingurinn í öndvegi. Við sjáum alla. Í Dalskóla ríkir viðhorf virðingar fyrir einstaklingnum og sérkennum hans. Það er hlustað á börn og nemendur og lögð áhersla á virðingu og væntumþykju. Hjartað er með í för. Í Dalskóla er mikill vilji til samvinnu við foreldra og lögð áhersla á hlustun og skilning.

Hér í Dalskóla er lögð áhersla á að fá alla  til þess að trúa á eigin hæfileika og getu til að læra. Hlutirnir og verkin fá að taka sinn tíma, þetta er gert með mislöngum námslotum, góðri hrynjandi í stundatöflum, aðkomu frístundar á skóladeginum og góðum löngum frímínútum. Í Dalskóla er lögð áhersla á að efla jákvæð og uppbyggileg samskipti við samferðarmenn, jafnaldra, fólk á misjöfnum aldri, af báðum kynjum, af ólíkum uppruna og menningarbakruna sem og eftir þroska og getu. Hér  viljum við ná árangri í öllu starfi, lífi, leik og námi. Við leggjum áherslu á vandaðar leik- kennslu- og frístundastundir. Leitað er leiða til að þjálfa, kenna og hlúa að börnum á fjölbreyttan hátt og leitast er við að styrkja áhugahvöt þeirra og að þau finni til innri skuldbindingar við að vilja ná árangri. Í Dalskóla verður unnið markvisst að þróun góðs samstarfs við tónlistarskóla, skólalúðrasveitir og íþróttafélög því það er okkar trú að samfella, skilningur og traust verði að ríkja á milli allra þeirra er koma að menntun og uppeldi barnanna. Það þarf heilt þorp til þess að ala upp barn.

 

Prenta | Netfang