Skip to content

Eineltisáætlun

Tilgangurinn með eineltisáætlun er að koma í veg fyrir einelti og aðra andfélagslega hegðun. Markmiðið er að skapa umhverfi og skólabrag þar sem allir geti notið sín í leik og starfi.

Allt starf í Dalskóla miðar að því að nemendum og starfsfólki líði vel við nám og starf. Í skólanum er lögð áhersla á að skapa skólamenningu þar sem einelti fær ekki þrifist. Það er opinn og lýðræðislegur skólabragur þar sem við hvetjum hvert annað til dáða, þar sem sérkenni einstaklinga njóta sín, þar sem byggt er á trausti og þar sem ríkir víðsýni og virðing.

 

Skilgreining á einelti

Einelti er langvarandi, endurtekin ótilhlýðileg og ámælisverð háttsemi líkamleg eða andleg sem er til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, mismuna eða ógna einstaklingi. Þetta er hegðun sem veldur vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að, þar sem einn eða fleiri níðast á einum sem ekki kemur vörnum við. Þetta er hegðun sem felur í sér misbeitingu valds þar sem gerandinn beitir hótunum, ofbeldi eða útskúfun.

Einelti getur birst á margan hátt:

 • Munnlega – uppnefni, stríðni eða niðurlægjandi athugasemdir. Hvíslast er á um barnið, flissað og hlegið
 • Skriflega - , niðrandi bréf, hótanir, ósamþykktar myndbirtingar, neikvæð netskilaboð, sms.
 • Félagslega – barnið skilið útundan, barnið þarf að þola svipbrigði, augngotur, þögn, algert afskiptaleysi eða lognar sakir
 • Andlega barnið er þvingað til að gera eitthvað sem stríðir algerlega gegn réttlætiskennd þess og sjálfsvirðingu,  barn sem er minnimáttar er látið gera eitthvað ósæmilegt fyrir annan sterkari (eldri) aðila
 • Líkamlega – gengið er í skrokk á barninu.
 • Efnislega – Eigur eru skemmdar eða teknar, faldar eða farið illa með

 

Einelti er ekki bundið við aldur en rannsóknir benda til að það sé algengast á aldrinum 9-12 ára.

Ferill í eineltismálum

Í Dalskóla er tekið á eineltismálum um leið og þau koma upp. Við skólann starfar eineltisteymi/lausnarteymi sem hittist einu sinni í viku.  Nemendur, foreldrar og starfsmenn  geta treyst því að brugðist sé við og á viðeigandi hátt ef upp kemur grunur um einelti.

 

 1. Tilkynnt um einelti

Til þess að virkja eineltisferil þarf að tilkynna um meint einelti á tilkynningarblaði.  Það blað er einnig hægt að nálgast á skrifstofu Dalskóla.  Allir geta tilkynnt um eineltisgrun starfsmenn, foreldrar, kennarar og nemendur.

 1. Umsjónarkennari/starfsmaður kemur með tilkynningu til lausnarteymis – könnun sett í gang

Lausnarteymi skipuleggur könnun og hannar aðgerðaráætlun eftir eðli málsins. Það getur þýtt að fylgst sé með barni – hvort sem er meintum þolanda eða gerenda, viðtal tekið við meintan þolanda, viðtöl við meinta gerendur, unnið markvisst að samskiptamálum og bekkjarmenningu, fenginn utanaðkomandi aðili til að fylgjast með hópnum og menningu hans eða samskiptum þolenda og gerenda. Einnig gæti athugun falist í að gerð sé tengslakönnun.

Umsjónarkennari upplýsir foreldra þeirra sem nafngreindir eru í tilkynningu að nafn viðkomandi barns hafi komið fram, og að málið sé á könnunarstigi.

Tilkynnanda og foreldrum meints þolanda tilkynnt innan tveggja vikna hvar málið er statt.

Málið er skráð jafnóðum á þar til gert eyðublað í skóla.

 1. Viðræður við foreldra þess sem talið er að eineltið beinist að

Fulltrúi lausnarteymis ásamt umsjónarkennara ræða við foreldra barnsins sem talið er að eineltið beinist gegn bæði til að safna nánari upplýsingum og til að tilkynna hvað fyrsta eftirgrennslan leiðir í ljós. Í einhverjum tilvikum getur þessi fundur farið fram símleiðis. Viðkomandi foreldrar veita leyfi, eftir eðli málsins hvort vísa skuli málinu í farveg utan skóla til þjónustumiðstöðar eða annarra sérfræðinga.  Þeir veita einnig leyfi til að málið verði rætt á nemendaverndarráðsfundi.

 

 1. Viðræður við foreldra meintra gerenda

Fulltrúi lausnarteymis ásamt umsjónarkennara ræðir við foreldra meintra gerenda þar sem niðurstöður könnunar eru kynntar. Niðurstöður þessara funda eru skráðar. Niðurstöður geta falið í sér að foreldrar veita leyfi, eftir eðli málsins, að unnið sé með hegðun geranda annað hvort innan skólans með þeim verkfærum sem hann hefur eða að vísa málinu í farveg utan skólans til þjónustumiðstöðvar eða annarra sérfræðinga. Foreldrar veita einnig leyfi til að málið verði rætt á nemendaverndarráðsfundi.

 1. Úrvinnsla

Eftir að leyfi hafa fengist hjá foreldrum/forráðamönnum og ákvörðun verið tekin um úrvinnslu er hafist handa við að fylgja þeim ferlum eftir. Þeir geta falist í stuðningi við þann sem eineltið beinist að, stuðning við bætta hegðun þess/þeirra sem standa að eineltinu og stuðningi við bekkinn eða hópinn. Úrvinnslunni eru sett tímamörk í hvert sinn og geta þau verið mislöng eftir því hvaða úrvinnsla er sett í gang.

 1. Eftirfylgd

Tveimur vikum eftir að úrvinnslu er lokið skal hitta fyrir einstaklingslega þau börn sem tengdust málinu í einrúmi til þess að meta líðan og áhrif inngripa. Upplýsa þá foreldra um  fundina.

 1. Lokun máls

Að hálfu ári liðnu skal haft samband við foreldra þolanda og ljúka málinu hafi tekist að stöðva eineltið. Máli er lokið með undirskrift í samráði við viðkomandi barn/börn og foreldra. Einnig skal haft samband við foreldra gerenda og þeir upplýstir um að málinu sé lokið.

 

 

Það ber að hafa í huga að hvert tilvik hefur sín sérkenni og sú aðferð sem notuð er við að brjóta upp einelti og leysa það farsællega á einum stað, á ekki endilega við á öðrum stað. Hafa skal  í huga aðgát um leið og unnið er markvisst  af virðingu.

 

Eineltisvarnaráætlun

Aðgerðir Dalskóla gegn einelti taka til skólans í heild, einstakra bekkjardeilda, námshópa og einstaklinga. Hver kennari ber ábyrgð á að framfylgja með virkum og ábyrgum hætti aðgerðaáætlun skólans gegn einelti og skólastjóri ber ábyrgð á að starfið sé samræmt.

Uppeldis- og samskiptaaðferðin Jákvæður agi í Dalskóla byggir á gagnkvæmri virðingu og samstarfi og fléttast því inn í daglegt samstarf nemenda og starfsfólks og dregur úr líkum á einelti.

Með jákvæðum aga viljum við vinna að því að nemendur tileinki sér þrjú viðhorf:

 1. Sjálfstraust – ÉG GET. Til þess að þróa sjálfstraust þurfa börnin öruggt andrúmsloft þar sem þau geta prófað sig áfram með nám og hegðun án þess að felldir séu harðir dómar um velgengni eða mistök, rétt eða rangt.
 2. Að tilheyra – ÉG TILHEYRI OG MÍN ER ÞÖRF. Til að öðlast tilfinningu fyrir mikilvægi í samfélaginu þurfa nemendur að upplifa að deila tilfinningum, hugsunum og hugmyndum með öðrum og að þær séu teknar alvarlega.
 3. Áhrif – ÉG HEF ÁHRIF Á UMHVERFI MITT OG LÍF. Nemendur munu reyna að hafa áhrif til góðs eða ills. Til að nemendur öðlist tilfinningu fyrir áhrifum og valdi yfir þeirra eigin lífi, þurfa þeir að upplifa umhverfi sem leggur áherslu á áreiðanleika og hvatningu.

Með jákvæðum aga viljum við vinna að því að nemendur þjálfi fjórar tegundir af hæfni:

 1. Innsæi – Við viljum þjálfa hæfni nemenda til að skilja tilfinningar og að geta notað þann skilning til að þróa sjálfsaga, sjálfsstjórn og að læra af reynslunni.
 2. Samskiptahæfileika – Hæfni nemenda til að vinna með öðrum með góðum samskiptum, skipulegri samvinnu, samningum, virkri þátttöku, hlustun og samhygð.
 3. Ábyrgð – hæfni barnsins til að bregðast við takmörkunum og afleiðingum í daglegu lífi með ábyrgð, aðlögunarhæfni, sveigjanleika og heiðarleika
 4. Dómgreind – Hæfni barna til að nýta reynslu sína og þekkingu til að meta aðstæður og aðgerðir með hliðsjón af réttu gildismati. Börnin og unga fólkið okkar þróa með sér góða dómgreind þegar þau hafa tækifæri og hvatningu til að æfa sig í að meta kosti og taka ákvarðanir í umhverfi sem leggur áherslu á viðleitnina til að gera betur.

 

Í Dalskóla munu nemendur og starfsfólk á engan hátt sætta sig við einelti. Forvarnir í eineltismálum eru að:

  

 •      Skólareglur eru kynntar börnum og foreldrum á haustin í heimaviðtölum hjá

grunnskólabörnum í heimaviðtölum og við upphaf leikskólagöngu hjá leikskólabörnum.

 •      Bekkjarsáttmáli útbúinn í hverri bekkjardeild á fyrstu dögum að hausti sem snýst um hvaða

nemendur vilja sjá og hvaða viðmið þau setja þar um

 •      Umsjónarkennari/námsráðgjafi kynnir eineltisáætlun skólans fyrir nemendum starfsmönnum

og foreldrum, kynnt hvar hana er að finna.

 •      Stjórnendur fari yfir áætlunin einu sinni á ári í ræðu eða riti innan skólans
 • Nemendur eru upplýstir um hvað einelti er og hvert þeir eigi að snúa sér ef þeir halda að þeir verði vitni að einelti í einhverri mynd
 • Í lífsleikninámi er fjallað um samskipti, líðan og einelti
 • Nemendur eru hvattir til þess að ræða við starfsfólk í trúnaði um líðan sína og ef þá grunar að öðrum líði illa
 • Nemendur fá formleg námsviðtöl við umsjónarkennara tvisvar á ári og þar er líðan rædd
 • Líðan og tengslakannanir lagðar fyrir eftir atvikum
 • Starfsmenn skólans fræðast reglulega um einelti og starfsmenn skólans ræða opinskátt um skólabraginn og hvernig samkennd og vellíðan birtist jafnt hjá starfsmönnum sem börnum.

 

Foreldrar eru hvattir til að hafa samband við umsjónarkennara ef ber á vanlíðan hjá nemanda.

 

Unnið er að forvörnum gegn einelti í skólum landsins á eineltisdeginum þann 8. nóvember ár hvert. Dalskóli mun fjalla um einelti með formlegum hætti þennan dag.

Fagráð um einelti

Mennta- og menningarráðuneytið gaf út í október 2011 reglugerð nr. 1040/2011 um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum. Hún tekur til réttinda og skyldna aðila skólasamfélagsins í allri starfsemi á vegum skóla, skólabrags, samskipta í skóla, skólareglna og málmeðferðar vegna brota á þeim. Að auki tekur hún til ábyrgðar nemenda með hliðsjón af aldri þeirra, þroska og aðstæðum. Í 7.gr. er fjallað um starf grunnskóla gegn einelti. Þar er kveðið á um að foreldrar og skólar geta óskað eftir aðstoð sérstaks fagráðs, sem starfar á ábyrgð mennta- og menningarmálaráðuneytis, ef ekki tekst að finna viðunandi lausn innan skóla eða sveitarfélags þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir og aðkomu sérfræðiþjónustu.