Skip to content

Stoðteymi

Í skólanum er stoðteymi. Stoðteymið er hluti af nemendaverndarráði. Kennarar í samvinnu við sérkennara, þroskaþjálfa, náms- og starfsráðgjafa og sérkennslustjóra hafa umsjón með sértækri námsaðlögun í samvinnu við skólastjórnendur og gera í sameiningu einstaklingsnámskrár eftir þörfum. Í einstaklingsnámskrám koma fram þau markmið sem unnið verður að á tilteknu tímabili. Foreldrar eru alltaf hafðir með í ráðum. Stoðteymið fundar reglulega og þar er skipulag starfsins og námsaðlögun rætt. Stoðteymið sinnir stuðningi við einstaklinga og hópa eftir þörfum. Stoðteymið vísar einnig málum til nemendaverndarráðs með vitund foreldra. Stoðteymið ber ábyrgð á því að upplýsa stuðningsfulltrúa um einstaka nemendur og leiðsegja um starfsaðferðir.

Aðstaða til þess að vinna með smærri námshópa er misgóð eftir rýmum, við höfum fjögur smærri herbergi úti í Hlíð. í Dalskólabyggingunni eru tvö auka herbergi fyrir nemendur á leikskólaaldri. Í nýju byggingunni eru tvö innrými inn af tveimur kennslustofum. Dalskóli hefur orðið sér úti um ýmis greiningartæki ( Logos, Hljóm, Tras, Talnalykill ofl ) á fyrstu starfsárum skólans, auk ýmissa forrita og hljóðbóka til þess að aðstoða nemendur í námi.

Hlutverk stoðteymis er fjórþætt:

  1. Að sinna og skipuleggja sérkennslu fyrir nemendur sem eiga í námserfiðleikum og/eða hegðunar- eða félagserfiðleikum. Nemendur fá ýmist kennslu tímabundið eða allt skólaárið.  Sérstök áhersla er lögð á sérkennslu í lestri, íslensku og stærðfræði. Auk þess er farið í félagsfærni og hegðunarmótun.   Nemendur á grunnskólaaldri fá aðallega sérkennslu í litlum hópum þótt einstaklingskennsla geti einnig átt sér stað. Börn á leikskólaaldri fá ýmist einstaklingsþjálfun/-kennslu eða hópþjálfun/-kennslu, sumir fá hvoru tveggja.
  2. Að halda utan um þær skimanir og greiningar sem gerðar eru í skólanum eins og lestrarskimanir, þroskaskimanir og stærðfræðiskimanir.
  3. Að halda utan um safn sérhæfðra námsgagna sem kennarar geta notfært sér.
  4. Að vera ráðgefandi. Kennarar geta leitað eftir aðstoð eða samvinnu aðila stoðteymis ef aðlaga þarf námsefni að einstaklingi eða hóp og við gerð einstaklingsnámskráa.

Telji kennari að nemandi hafi þörf fyrir sérkennslu eða stuðning í bekk, geta þeir tekið málið upp á nemendaverndarráðsfundi eða rætt það við sérkennara. Slíkar beiðnir skulu alltaf tilkynntar foreldrum.